laugardagur, október 01, 2005

Af óreittum hænsnum, bátsferðum og fleiru

Jæja, ekki ætlar það nú að ganga mikið betur að setja inn fréttir með þessari tækni ... en best að reyna samt.

Það er þá helst í fréttum að við drifum okkur til Monkey Bay fyrir rúmri viku. Ása og Minna voru þar fyrir í Strandkoti og biðu komu okkar. Kristrúnu var svo sturtað úr þar og við héldum áfram niður í Monkey Bay city. Ég í vinnuna, alltaf nóg að gera þar og Svenni í ýmiskonar stúss. Á meðan ég var í mesta sakleysi í vinnunni þá stóðu þau í allskyns brölti, voru m.a. búin að panta hænur sem átti að hafa í matinn á laugardeginum, en þá átti að halda uppá afmælið hennar Ásu. Ég trúði því ekki að nokkur maður myndi nenna að standa í þessu, sérstaklega þegar hænur eru nú eitt af því fáa sem fæst tiltölulega neytendavænt í PTC. En þetta fannst þeim, sérstaklega Ásu og Svenna, einkar sniðugt. Morgunin eftir gerðist það svo að við sátum í makindum úti á verönd að borða morgunverð. Allt í einu stekkur Svenni upp og segir "þær eru komnar og þær eru lifandi" og hvað átti hann við annað en hænsnin, en sá sem hafði boðist til að selja þeim þær var sum sé mættur með lifandi hænsn í hjólbörum. Uppi varð fótur og fit og farið af stað að gera honum grein fyrir því að hann yrði að sjá um að koma þessu í þannig horf að hægt væri að elda þetta! Það gerðist svo þrátt fyrir mótmæli því tengd að þetta væri kvenmannsstarf. Ása sagði ekki koma til greina að hún stæði í svona stússi. Hún vildi bara fá hænsnið dautt og reitt!!

En skemmst er frá því að segja að þau Svenni fóru í að hreinsa fiðurfénaðinn og bita hann niður sem var þrautin þyngri því ekkert var til nema algjörlega bitlausir hnífar. En allt gekk þetta þó að lokum. En áður en hænsnin og fleira voru elduð var farið í frábæra bátsferð á Möllunni og siglt um á Malawivatni og skoðuð fiskimannaþorp á leiðinni. Við reynum að koma inn myndum við tækifæri, en það var alveg óskaplega fallegt að sigla þarna framhjá, og ekki síður gaman að fara i land í Zambo og skoða þorpið og skólann sem ÞSSÍ styrkti byggingu á. Svo var siglt inn í lita vík og tekinn smá sundsprettur. Kristrúnu var nú reyndar um og ó, hálfhrædd fyrst en var svo komin í gott stuð og úr björgunarvestinu.

Um kvöldið var svo afmælisveisla Ásu, grill og fínerí. Mér skilst reyndar að þeim hræætunum hafi fundist hænsin full seig, sem auðvitað er synd eftir allt vesenið við að koma þeim á grillið, hehehe. En hápunktur kvöldsins var svo þegar Gule wa kulu mætti á ströndina og tók léttan dans fyrir Ásuna. Kristrún skilur orðið ekkert í þessu að þessi fyrirbæri skuli einhvernvegin elta okkur á röndum - hún getur vart farið til Monkey Bay án þess að komast í tæri við þá félagana með grímurnar!

Þá er þessi færsla hér inn búin að taka svo langan tíma að það fer alveg að koma að næstu ferð niður til Monkey Bay! Ása og Minna koma vonandi hingað til höfuðborgarinnar á morgun til að fá smá hvíld á flakkinu, en þeim verður svo sópað upp í bíl aftur á föstudagseftirmiðdag og farið með þær niðreftir enn á ný. Meira af því síðar ...

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home