Emil í Kattholti og Krilla í Strandkoti
Hver er munurinn á þeim skötuhjúum? Ekki mikill ef marka má fröken Kristrúnu sem sagði við frænku sína um daginn eftir hinn daglega kvöldlestur um skammarstrik Emils "Ása, er það ekki skrítið að við Emil erum bæði svona litlir kútar, við erum bæði ótrúlega óþekk og við kunnum bæði á hest"!! Þessu hafa fjölskyldan og gestir skemmt sér yfir undanfarna daga! En það má til sanns vegar færa að þau eigi ýmislegt sameiginlegt blessuð, nema það að fröken KI segist ekki kunna að tálga!
Annars er það helst í fréttum að við fjölskyldan ásamt þeim Minnu og Ásu erum í Monkey Bay aftur. Búin að vera í tæpa fimm daga og eigum ca 3 eftir. Höfum haft það verulega gott, skemmt okkur á ströndinni í Chirombo, farið á Sun n´ Sand, við kerlingarnar slappað af og tekið því rólega, en feðginin eru að sjálfsögðu lítið í slíku og meira í allskyns aksjón.
KI var svo ein með þeim skvízunum í gær meðan við fórum útí þorp vegna vinnunnar og líkaði vistin vel. Hún var víst hin rólegasta með þeim í sófanum úti á verönd og tilkynnti þeim svo að þetta væri nú aldeilis rólegt og huggulegt og ekki lítill munur að vera laus við tuðið í þessum foreldrum. Hmm, er þetta ekki full snemmt í svona yfirlýsingar .... ??
Hér er mikill hiti þessa dagana, rúmlega 30 stig á kvöldin. Maður kíkir ekki einu sinni á mælinn í mesta hitanum og sólinni á daginn. Þetta er reyndar bara óskup notalegt, maður hefur allt opið, er með viftur í gangi og nýtur þess svo bara að liðast um í hálfgerðu hitamóki!! Annars kemur oft ágætur andvari á nóttinni þannig að þær eru ekkert óbærilegar, og svo er það alveg með ólíkindum yndislegt að hlusta á niðinn frá vatninu og söng fiskimannanna þegar þeir róa til fiskjar eldsnemma á morgnana.
Það sem þó skyggir á gleði manns af því að vera á þessum dásamlega stað er hungursneyðin sem í raun er orðin meira en yfirvofandi hér í þessu héraði. Akrar eru þurrir og tómir og þar að auki erfitt að fá til kaups maísinn sem fólk hér lifir á. Það sem gerir ástandið ískyggilegra er það að það er jú bara október og regntímabilið eftir. Oftast skapast þetta ástand ekki fyrr en í desember, og þá er mun styttra í að fólk geti búist við einhverri uppskeru af ökrunum að regntímabilinu loknu. En maður verður bara að vona að úr þessu rætist og reyna að hugsa sjálfur upp einhverjar leiðir til að hjálpa.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home