fimmtudagur, október 20, 2005

Meira af Emil og Krillu

þá er það nýjasta af þeim skötuhjúum Emil og Krillu að ekki ku vera hægt lengur að lesa um ævintýri Emils í Kattholti fyrir fröken KI. Ástæðan er sum sé sú að um daginn var okkur fjölskyldunni ásamt gestum boðið til kvöldverðar hjá samstarfskonu minni sem býr í næsta nágrenni við okkur. Frökenin var afar ósátt við að þurfa að hverfa tiltölulega snemma á braut með pabba sínum, en hún varð að komast heim í háttinn enda alltaf vöknuð um kl 6 á morgnana til að komast í skólann. Þarsem þau feðgin gengu heim á leið í næstum algjöru myrkri Lilongweborgar grét hún og gólaði og tjáði sig af innlifun um það hversu hræðilega ósanngjarna foreldra hún ætti og um vonsku heimsins yfirleitt, en hún vildi ekkert frekar en að fá að vera áfram í boðinu. Þegar pabbi hennar sagði að þetta gengi nú ekki að láta svona og vera með þessa óþekkt, þá var hún fljót að svara fyrir sig: óþekktin er öll Ásu að kenna, hún er alltaf að lesa fyrir mig um skammarstrik Emils og þá læri ég svo mikla óþekkt að ég bara ræð ekki við mig, það verður að segja henni að hætta þessu! Öllum lestri um skammarstrik stráksins í Kattholti hefur því verið hætt, a.m.k. um stundarsakir.

Í öðrum krillfréttum er það helst að í gær var hinn vikulegi "kökudagur" í skólanum og í þetta sinn voru það yngstu börnin sem áttu að koma með kökur. Það var því mikil starfsemi í húsinu í area 10, en þær Ása og Minna tóku að sér kökubakstur og var árangurinn hinar glæsilegustu súkkulaðiformkökur með þessu líka fína skrauti. Allt vakti þetta mikla lukku og við fengum nákvæmar lýsingar á öllu sölu og átferlinu þegar unginn kom heim úr skólanum. En í Bishop Mackenzie tíðkast það sum sé að í frímínútum á miðvikudögum eru seldar kökur sem fjölskyldur nemenda eru fengnar í að baka og ágóðinn notaður til að styrkja við starfsemi skólans. Ekkert svona neitt of mikið hollustukjaftæði, hvað ætli forvígismenn Latabæjar myndu segja;)

Svo er sundkennslan að byrja í dag - frökenin hafði ákveðnar áhyggjur af þessu, hélt að kennarinn myndi nota sömu aðferðir og pabbi hennar! En mætti í skólann með tilgreindan útbúnað, sum sé sundbol (reyndar ekki dökkbláan einsog hann á víst að vera) , handklæði, flipflops og sundkúta. Nánari fréttir af aðgerðinni verða færðar inn síðar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home