þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Matreiðsluskóli Ásu


Þá er best að reyna að koma hér inn smá fréttum, en Pravda hefur stundað ítarlega ritskoðun undanfarið, svo mjög að fréttasendingar hafa legið að mestu niðri.

En annars er það helst að frétta af okkur héðan úr hinu hlýja hjarta Afríku að Ása hefur staðið í umfangsmiklum matartilbúningi, hefur gengið svo langt að hún er allt að því búin að stofna hér matreiðsluskóla. Húsnæði skólans er enn sem komið er í húsi nokkru í area 10 og eini skráði nemandinn sem stendur er Flora, en það eru miklar líkur á því að ef kennarinn væri ekki að fara til Íslands í lok vikunnar þá myndi starfsemin aukast og nemendum fjölga mjög. En Flora hefur verið í ströngu námi hjá Ásu og er þegar búin að sanna sig í bakstri og öðrum matargerðarlistum. Er búin að baka súkkulaðiköku, eplaköku, pönnukökur auk þess sem hún og hennar maestro hafa útbúið súpur, kartöflustöppu, linsubaunabuff og önnur gastrónómísk meistaraverk. Við hin njótum góðs af og erum þvílíkt ánægð með trakteringarnar. Þetta er þó ekki allt, því Ása hefur einnig verið með John, son Floru, í nokkurskonar matarmeðferð. Meðferðin fer þannig fram að þegar hin börnin eru farin í skólann setjast þau á veröndina og Ása gæðir John á ýmiskonar matvælum sem öll eiga það sameiginlegt að vera prótínrík. Hún er nefnilega sannfærð um að John blessaður karlinn þjáist af prótínskorti, og hefur þar fyrir sér útstæðan maga og gisið hár. Miklar rannsóknir hafa farið fram á málinu og millilandasímtöl við hjúkrunarfræðinga og var það helsta niðurstaðan að rétt væri að prófa áðurnefndan prótínkúr. Hvað niðurstöður varðar má a.m.k. segja að ekki hafi drengurinn haft verra af viðurjörningnum, en bumban er í sjálfu sér jafn útstæð, en það kann að stafa af því að hann hefur sennilega kviðslitnað í fæðingu og ekkert verið gert í því.

Annars er allt með kyrrum kjörum í garðinum hjá okkur þessa stundina. Ekkert stríð á milli fjölskyldna svo við vitum allavega. Nýjasta þróunin þar er sú að Svenni samdi við dagvörðinn okkar að taka krakkana í kennslu í ensku svona sirka klukkutíma á dag fjóra daga vikunnar. Hann tók vel í það og er núna með þau í tímum eftir hádegið frá mánudegi til fimmtudags. Það virðast allir ánægðir með þessa skipan mála, krakkarnir sitja þæg og góð og læra hjá honum, og honum finnst þetta ekki leiðinlegra en svo að þessi klukkutími teygir sig oft uppí tvo jafnvel þrjá tíma. Kristrún tekur yfirleitt ekki þátt í þessu, við ákváðum að það myndi ekki ganga, hún myndi dóminera þetta allt of mikið, en einstaka sinnum þegar hún er búin að læra heima fer hún og situr aðeins með þeim. Hún var ansi góð með sig einn daginn, sagðist hafa verið "Annie" í tímanum hjá Ronaldo, en Annie er aðstoðarkennarinn í bekknum hennar!

1 Comments:

At 2:34 f.h., Blogger Þórdís Gísladóttir said...

Frábært að vita af þessu og gaman að lesa.

 

Skrifa ummæli

<< Home