Kreppan og heimskreppan
Í sjónvarpsfréttum voru umræður um Japan og kreppuna og svoleiðis vesen (og kannski þennan þarna ráðherra sem drakk of mikið af hóstamixtúru)
Dóttir: Er kreppan virkilega komin alla leið til Japan
Mamma: Tja, það ber ekki á öðru
Dóttir: Er það þá kreppan eða Heimskreppan
Mamma: (örlítið hissa) ætli það hljóti þá ekki að vera Heimskreppan
Krukkubörn
Einhverra hluta vegna lentu mæðgur í umræðum um mömmur, ömmur, langömmur og viðlíka einstaklinga ...
dóttirin spyr móður sína:
dóttir: "afhverju ert þú mamma mín"
mamman: "nú, afþví ég fæddi þig"
dóttir: "nauts, þú þurftir bara að láta skera mig útúr maganum á þér"
mamman: "tja, það var nú kannski ekki alveg bara svo auðvelt"
dóttir: "jú, og svo áttir þú hvortsemer bara eggið, það eru þær þarna frumurnar sem þurfa að gera alla vinnuna, þannig að eiginlega gerði pabbi mest"
mamman: "nú, er það virkilega"
dóttir: "mamma, ég meina það, þú veist nú bara ekki neitt um fæðingar"
dóttir: eftir smá þögn "mamma, er ég krukkubarn?"
mamman: "ha, hvað meinaru? já, ertu að meina "glasabarn"?"
dóttir: hlær " já, er ég svoleiðis?"
mamman: "nei, þú ert ekki krukkubarn!!"
Celeste Sánchez
Kominn tengill á heimasíðu Celeste sætustufrænku hér til hliðar.
Tek fram að myndin af henni á forsíðunni var tekin af undirritaðri í ferð í "Svínastíuna" á áliðnu hausti 2007. Hún er svo sæt á myndinni að mann langar gjörsamlega til að bíta í þessar bollukinnar.
Var í pössun hjá Víðimelsliðinu í gær og fór með móðursysturinni og stórufrænku í KR þarsem frænkan var á fótboltaæfingu. Naut sín í botn að sjá allskonar nýja hluti og láta konur og krakka brosa framanísig. Ótrúlega dugleg að leika sér á teppinu sínu á eftir, svo mjög að stórafrænka var sannfærð um að lillsen væri farin að skríða, svo miklum framförum tæki hún á stuttum tíma við Víðimelskar herðingar.
6 mánaða uppgjör
Jamm, þá hafa skrif hér legið niðri í hálft ár, og spurning hvort það er ekki “tómt rugl” að taka upp þráðinn að nýju;) Við löngu komin til baka til Íslands frá sunnanverðri Afríku og hefur bara gengið mæta vel að aðlagast íslensku brjálæði.
Öppdeit frá því síðast hljómar því einhvernveginn svona:
Komum til Íslands alveg í blálok júnímánaðar, í þvílíka veðurblíðu að annað eins hefur vart gerst í manna minnum. Nefna má að mun hlýrra og betra veður var í Reykjavík á þeim tíma en í Jóhannesarborg, en þar var bara kuldi og gaddur meðan við stoppuðum, meira að segja örlítil snjókoma. Var víst fyrsti snjórinn í fjöldamörg ár og Suður Afríkanarnir alveg uppnumdir yfir þessum óskupum. Sem meira er þá hélt þetta góða veður í Reykjavík bara áfram, og áfram og áfram .... þvílík blíða gjörsamlega vikum saman.
Við fluttum aftur inn á Víðimelinn góða – það hefur allt gengið stórslysalaust þrátt fyrir þrengsli. Fljótlega var farið í það að pakka niður úr íbúðinni öllu sem mögulega var hægt að komast af án (og kannski aðeins fleiru, eftir því hver segir söguna) og allt draslið flutt í geymslu. Þetta var frekar trámatísk upplifun fyrir húsfreyjuna sem er jú alþekkt af söfnunaráráttu sinni, sem er mjög altæk og fer ekki í hlutagreiningarálit, dóttirin býsnast t.d. enn yfir því, svona öðru hverju, að hafa farið ásamt móður sinni yfir fjöldann allan af kössum af gömlum bréfum og kortum og þurft að henda megninu (svosem einsog 2 svörtum ruslapokum) tja, jamm, þetta er náttla bilun. Saman býsnuðust þau feðgin svo yfir hinum ýmsustu gripum og söfnum, svosem einsog meintu kertastjakasafni húsfrúarinnar, sem hafði raunar fram að þeim tíma verið blessunarlega laus við að hafa hugmynd um að hún safnaði kertastjökum. En sum sé, það sem ekki lenti í Sorpu, Góða Hirðinum eða bara í tunnunni fór í geymslu og verður væntanlega tekið til notkunar þegar Smáborgarahöllin á hálendinu verður tekin í notkun.
Um miðjan ágúst kom svo hinn ágæti 40 feta gámur sem sendur var frá Afríkunni góðu. Úff, púff, það var nú meira vesenið sem var honum samfara greyinu. Fyrst þurfti náttúrlega að tollafgreiða gripinn, og það tók nú sinn tíma því, einsog okkur einum er lagið, gátum við ekki haft þessa sendingu einfalda. Nei, hún var samsett af búslóðinni okkar (sem í sjálfu sér er afar einfalt dæmi í innflutningi og ekki tollskylt) og því sem við höfðum keypt til að nota í áðurnefnda Smáborgarahöll, eða gólfefni, timbri í gluggana og svona hinu og þessu smálegu. Sem og 12 flöskum af Malavísku gæðagini auk þess sem Malavískt kaffi og te flutu með í einum kassa (sem nota bene hefur ekki enn fundist, kemur kannski í ljós í myrkviðum geymslunnar með vorinu). Þetta gerði málið að sjálfsögðu afar flókið og þurfti að fara margar ferðir fram og til baka þartil greitt var út þessari flækju. Og ekki tók þá betra við, en það þurfti jú að losa gáminn, og það gerðum við hjónakorn að mestu ein, en fengum hjálp frá Eiríki fyrsta daginn þegar allt stóð fast og frúin varð að játa sig sigraða í glímu við borðstofuborð sem sennilega vegur í kringum tonn eða svo. Sko, málið er að gámurinn var svo fullur af dóti og svo nákvæmlega í hann pakkað að það var gestaþraut að ná draslinu útúr honum, og svo var þetta svo viðbjóðslega þungt að það er varla hægt að tala um það. En allt gekk þetta að lokum – þegar Svenni karlanginn var búinn, aleinn, að bera 11 tonn af timbri úr gámi og inn í bílskúr, auk þess að selflytja 5 tonn af gólfefni úr gámnum yfir í geymsluna. Já, fólk hefur misjöfn áhugamál og okkar eru sennilega svona aðeins klikkaðari en gengur og gerist.
Svona þess fyrir utan fór karlinn í 10 daga hestaferð um norð-vesturland um miðjan júlí en mæðgur voru í bænum og nutu góða veðursins sem og þess að vera með yngstu móðursysturinni og nýjasta fjölskyldumeðlimnum, henni Celeste Sánchez. En Celeste, sem er íðilfögur snót, glaðleg og gáfuð einsog hún á kyn til, kom í heiminn þann 30. júní 2007, akkúrat daginn eftir að við komum til landsins. Alltaf hugulsöm þessi elska.
Mæðgur drifu sig raunar í smá ferðalög líka, náðu í karlinn í lok hestaferðar og drifu hann með sér áfram sem leið lá hringinn í kringum eyjuna. Fín ferð í frábæru veðri. Familían ásamt afa Gunnlaugi fór svo norður í Húnavatnssýslu nokkru síðar og þaðan áfram í Skagafjörðinn þar sem var gist í góðu yfirlæti.
Íslensk grunnskólaganga Kristrúnar Ingunnar hófst svo í lok ágúst, en hún fór í annan bekk í Melaskóla. Fékk frábæran kennara og góða bekkjarfélaga og hefur gengið mjög vel í skólanum. Einsog týpísku íslensku barni sæmir fór hún einnig í Frístundaheimili eftir skóla, er í Selinu frá því skóla lýkur og þartil foreldrarnir sækja hana að vinnu lokinni. Hefur þó verið svo heppin að Hólla móðursystir sækir hana snemma á föstudögum og þær frænkur þrjár hafa það huggulegt á Víðó þartil foreldrarnir koma heim. Hún byrjaði svo aftur þar sem frá var horfið í ballettinum hjá henni Brynju Scheving, tvisvar í viku og hefur það bara gengið vel, þó hún hafi stundum kvartað yfir því við ömmu sína að “Sissa skipar mér að fara”!! En eftir áramót ætlar hún að halda ballettnum áfram (en segir að það verði síðasta sinn) og fara líka í fótbolta hjá KR.
Foreldrarnir þurftu líka að takast á við ný verkefni. Húsmóðirin gerðist alþjóðafulltrúi hjá Tollstjóranum í Reykjavík og unir þar glöð við sitt. Hún tók líka að sér að kenna fimm eininga námskeið í bókmenntum sunnanverðrar Afríku við enskuskor H.Í. Heilmikil vinna (og illa borguð, þarf vart að taka það fram, en best að gera það samt, svona til að fá útrás fyrir verkalýðsforkólfagenin) en skemmtileg á flestan hátt. Heimilisfaðirinn gerðist markaðs- og sölustjóri hjá SPRON Factoring, en SPRON hafði meðan við bjuggum í Afríku keypt Midt Factoring sem hann setti á stofn á sínum tíma, og því má segja að hann hafi sest í gamla sætið sitt aftur – svona þannig séð! Það hafa því allir fjölskyldumeðlimir haft nóg að sýsla þetta hálfa ár á Íslandi – ekki hægt að kvarta undan verkefnaleysi. Svo þurfti að sjálfsögðu aðeins að huga að byggingu Smáborgarahallarinnar, fylgjast með og taka til og vesenast í pappírsfrumskóginum – auk þess að taka aðeins til hendinni – ganga frá fyrir utan svo það fengist nú fokheldisvottorð, þrífa og vesenast þannig að auðveldara væri fyrir vinnumennina að vinna sín störf og svona eitt og annað stúss. Svo var foreldrastarfið í skólanum tekið föstum tökum og húsfrúin lét plata sig í að gerast formaður foreldrafélags Melaskóla, dótturinni til lítillar ánægju;)
Fórum svo öll saman til London í byrjun desember. Fórum í leikhús, söfn, röltum um og síðast en ekki síst versluðum!! Höfðum öll gaman af ferðinni og getum vel hugsað okkur að endurtaka fjörið að ári.
Fengum góða gesti í desember, en þá komu til okkar þau Rachel, Stuart, Alice og Sam alla leið frá Lilongwe. Þau voru hjá okkur í eina 10 daga og upplifðu íslenska skammdegisstemmingu! Fengu þvílíkt að kynnast íslenska veðrinu, ofsastormi, snjókomu, brjálaðri rigningu og öllu þar á milli. Sáu gullfoss og geysi og fannst að sjálfsögðu magnað. Alice fékk aðeins að fara með Kristrúnu í skólann og á jólaball og svona sitthvað fleira. Sam vakti verðskuldaða athygli á Íslandi, fólk sem sá hann alveg að missa sig yfir því hvað hann væri ótrúlega sætur og krúttaralegur. Gekk svo langt að stelpurnar urðu hálf móðgaðar stundum, og kvörtuðu við mig þegar við vorum í jólahlaðborði í Perlunni að einhver kona hefði sagt: “Oh, what lovely children, especially that one” og bent á Sam. Þeim þótti þetta bara dónalegt að vera að taka hann svona útúr, þær væru alveg jafn “lovely”!!
Þau héldu svo ferðinni áfram þann 21. desember. Fóru héðan til Bretlands og voru yfir jólin og svo þaðan til Mobassa, og lentu í einhverjum minor hremmingum útaf ástandinu vegna kosninganna í Kenýa. Ekkert meiriháttar samt og þau komst til Malaví aftur án teljandi vandræða. Þegar þau voru farin tók við að klára jólastússið – og allt hafðist það nú að lokum – enda svosem ljóst að jólin myndu koma hvort sem við værum reddí eður ei. Jólahald fór vel fram – og svo var auðvitað aðalmálið 7 ára afmæli heimasætunnar þann 30. desember, en einsog lög gera ráð fyrir var haldið uppá það með pompi og prakt. Sökum þrengsla var gestum sagt að þeir væru velkomnir á tímabilinu frá klukkan þrjú og frameftir. Sem gekk eftir – þeir fyrstu komu rétt rúmlega þrjú og sá síðasti um níuleytið um kvöldið. Húsráðendur voru svo heppnir að fá aðstoð frá bestu bökurum bæjarins, en amma Kristrún kom hlaðin af dýrindis tertum og bakkelsi og Hólla móðursystir líka.
Þetta árið var svo hið árlega gamlársmorgunsboð saumaklúbbskvenna (en by the way, þá leggur Kristrún Ingunn sérlega fæð á fyrirbærið saumaklúbb og segist vita að við vinkonurnar séum eingöngu með þennan hryllilega klúbb til þess að skaprauna börnunum okkar) var haldið á Víðimelnum að þessu sinni, og fór vel fram. Stúlkurnar mættu allar kátar og glaðar og borðuðu fiskisúpu og brauð og gæddu sér svo á restinni af kökunum úr afmælinu. Gamlárskvöld var svo bara á rólegu nótunum, Hrönnsla borðaði hjá okkur, hún sofnaði yfir skaupinu og við hin svona gjóuðum á það augunum. Húsmóðirin hló upphátt einu sinni, þegar sýnt var frá fjölskyldu sem var að plana útilegu!
Þetta hlýtur að nægja af ævintýrum okkar á landinu kalda seinni helming þess ágæta árs 2007 ....
Sidustu dagarnir sunnan Sahara
Jaeja, tha er aldeilis komid ad timamotum - vid logd af stad i ferdalagid til Islands!! Akvadum ad stoppa i Joburg og hvila okkur eftir laetin sidustu dagana i Lilongwe og brjota adeins upp allt thetta langa flug. Erum buin ad vera her sidan a manudagseftirmiddag, i godu yfirlaeti. Leggjum svo af stad til London annad kvold og verdum komin til Islands a fostudagseftirmiddag. Svolitid skritid, en gaman.
Sidustu dagarnir i Lilongwe voru hreint ut sagt brjalaedi. Allt a fullu ad pakka nidur ur husinu, ganga fra og koma drasli ut um hvippinn og hvappinn. Kristrun var i skolanum alveg fram a fostudag i sidustu viku og hennar programm a fullu medfram ollum latunum. Vid nadum thvi loks a laugardagshadegi ad loka gamnum - thvilikur lettir!!!!! En til Islands er lagdur af stad 40 feta gamur med eigum vorum - ekki nema von ad Svenni spyrdi ... hvernig gatu thessir 9 kassar sem sendir voru fra Islandi fyrir 2 arum ordid ad fullum 40 feta gam og riflega thad, thvi vid urdum ad skilja hluti eftir thvi thad var hreinlega ekki haegt ad troda theim inn, thratt fyrir godan vilja.
Svo var Celebration i skolanum hja KI a midvikudeginum og thar fengu bornin svokollud certificates fyrir thad sem thau stodu sig vel i. Vid vorum ekkert sma stolt, thvi unginn fekk certificate i hreinlega ollu, th.e. ensku, staerdfraedi, leikfimi, tonlist og tolvum = og thad sem thau kalla effort (thydir ad vidkomandi hefur lagt sig allan fram) i sundi. Sem thydir gjorsamlega oll fog sem thessir ungar voru i. Eg verd samt ad vidurkenna ad jafn glod og anaegd og eg var tha gat eg ekki annad en hugsad til elsku litlu kerlingarinnar hennar Emmu Katrinar okkar, sem ekki fekk ad vera hja okkur nema i rum atta ar, en hun var einmitt nakvaemlega svona barn einsog Kristrun, alltaf kat og glod og otrulega klar og dugleg. En kannski hugsadi eg svona mikid til hennar a thessari stundu afthvi eg var glod og anaegd med litla ljoshaerda vikingastulku -
Yfir i annad, her er otrulega kalt, snjoadi i nott, og algjor frystikista uti. Madur naer sennilega bara ad lata ser hlyna a Islandi! Eitthvad skritid vid thad! Buid ad vera frekar kalt lika i Lilongwe undanfarid, skitkalt inni og madur bara farin ad taka fram flispeysurnar og svona.
Latum naegja i bili - naesta faersla vaentanlega fra Islandi - verdum tha liklega ad breyta nafninu a blogginu, hehe
Vetur á suðurhveli
Þá er nú hægt að byrja á þessu venjulega - afsaka slóðaskap við fréttaflutning frá hinu hlýja Afríkuhjarta. En almáttugur minn, hér hefur allt verið í tómu brjáli og tjúlli og enginn tími gefist til að skrifa fréttir á vefsíður! En sko, síðan síðast (man varla hvenær það var) eru komnir fullt af gestum, sum sé Ingibjörg og Þura Skarphéðins- og Ragnhildardætur, og svo þær mæðgur Hrönn og Kristín. Hópurinn er búinn að vera síðan sirka 20 maí og svo fara allir í hóp í flug til Nairobi þann 13. júní. Þá verður nú heldur betur tómlegt í area 10, og varla lagar það ástandið að þá þurfum við að fara beint í það að troða ofaní kassa og kirnur og gera allt reddí fyrir departure - hægt að segja einsog í leikritunum :"exeunt".
Sum sé, á þessum tíma gerðist það að vopnaðir ræningjar réðust inn hjá Kidda vini okkar og samstarfsmanni - og tóku með sér allt fémætt eftir að hafa látið öllum illum látum. Engar nánari lýsingar hér. Þannig að það er auðvitað mikil orka og tími búinn að fara í það mál alltsaman og heilmiklar breytingar þegar orðnar og væntanlega fleiri á leiðinni í kjölfar þessa. Við pössuðum bara uppá að Kristrún fengi ekki að vita af þessu, hún var nógu hrædd í fyrra kerlingargreyið þegar kerfið okkar fór ítrekað að ýla þegar verið var að reyna að brjótast inn hjá okkur - eitt sinn af vopnuðum gæjum. Hún hefði orðið gjörsamlega miður sín yfir þessu og ekki síður því að Kiddi vinur hennar, sem hún telur heimsins besta skipstjóra, Skipper á Möllunni góðu, hefði lent í svona "ljótum köllum".
Þetta hefur svo þýtt að við höfum ekki getað gist í Strandkoti - en það er búið að ganga svo frá hnútum núna að það á að vera í lagi, og við náum vonandi að fara eina ferð niðreftir áður en við hverfum úr landi. Nauðsynlegt að kveðja Apaflóa og Chirombo og allt þar. Kristrún þarf að geta sagt bless við vinina á ströndinni og allt það. Æi, við eigum eftir að sakna alls þessa, þó kannski ekki þess að vera stöðugt að fá beiðnir um styrki og jarðarfararaðstoð og allt það ...
Svo bara allt í fjöri að undirbúa Íslandsför - fá tilboð í flutninga, láta útbúa kassa undir draslið, pæla í því sem á að taka með sér og því sem á að láta gossa und so weiter.
Við erum svo ægilega lukkuleg með það að vinafólk okkar, foreldrar bestu vinkonu Kristrúnar, eru búin að ákveða að koma í heimsókn til okkar til Íslands í desember. Það verður fjör, við erum búin að lofa að krakkarnir fái að sjá snjó! Eins gott að við getum staðið við það!
Nóg í bili - kannski maður reyni að vera duglegur við updateringar áður en haldið verður á norðurhvel ....
Kveðjur, Lilongweliðið
Allt í rólegheitum
hér í Afríkunni. Komin heim úr Jóhannesarborgarmenningunni - vorum nú bara fegin að komast hingað í aðeins meiri hlýju. Það var alveg hrottalegur kuldi þarna fannst manni. En hér er raunar farið að kólna heilmikið, bara kalt snemma á morgnana og á kvöldin. Peysuveður þegar Kristrún fer í skólann á morgnanna og engin þörf fyrir loftkælingar, sem er nú svosem ágætt. Skrítið hvað maður er fljótur að gleyma, en svona var þetta auðvitað á þessum tíma í fyrra - maður bara mundi það ekki alveg;)
Annað sem er alveg eins og á sama tíma í fyrra er stöðugt rafmagnsleysi. Rafmagnið meira og minna að fara á hverjum degi, annaðhvort svona um sex leytið á kvöldin og fram undir átta eða þá snemma á morgnana. Þetta eru sennilega einhverjar einkennilegar rafmagnsskammtanir, maður skilur þetta ekki alveg. Blessuð rafstöðin okkar auðvitað biluð þegar átti að nota hana um daginn, en það er víst búið að finna útúr því þannig að það ætti að vera hægt að notast við hana ef þetta verður viðvarandi ástand!
Annars bara rútínan í gangi. Kristrún á fullu í skólanum, ballettinum og þessu stússi öllu. Förum svo til Monkey Bay núna á morgun og verðum í nokkra daga. Það verður fínt, alltaf svo gott að vera þar í sveitasælunni.
Erum svona að öðru leyti bara aðeins að byrja að undirbúa brottförina, sem nálgast óðum. Ótrúlega skrítið að við skulum búin að vera hér í bráðum 2 ár. Og enn skrítnara hvað safnast af drasli að einni lítilli fjölskyldu!! Verið að vinna í að grisja það aðeins þannig að þetta verði ekki algjör martröð rétt í lokin.