Air Where Are We
Jæja, þá er hún Ása búin að yfirgefa okkur og komin heim í kuldann og skammdegið á Íslandi. Við söknum hennar auðvitað ógurlega, og það gerir væntanlega John líka. Svenni hefur nú reynt að sjá til þess að arfleifð Ásu lifi aðeins í garðinum í area 10 og sér til þess að drengurinn fái sinn matarskammt á morgnana þegar hin börnin eru farin í skólann. En heimferð Ásu gat nú auðvitað ekki gengið alveg áfallalaust, enda við í Afríku þar sem allt getur gerst, eða einsog sumir segja “This is Malawi, you have to suffer”!! En nei nei þetta er nú alls ekki þannig svona yfirleitt, maður bara lætur svona þegar maður er búinn að bíða í 2 mánuði eftir síma og tvo í viðbót eftir útlandalínu og þegar rafmagnið fer í tíunda skiptið þá vikuna og svona ...En Ása átti sum sé að fljúga til Nairobi með Air Where Are We, öðru nafni Air Malawi á föstudagseftirmiðdegi, eitthvað um fjögur leitið. Við vorum að sjálfsögðu öll mætt út á völl vel fyrir áætlaða brottför einsog skipulögðum einstaklingum sæmir. En þá er okkur sagt að því miður þá hafi flugið verið fellt niður, og núna verði bara flogið til Dar Es Salaam kl sjö og þaðan til Nairobi og svo til Dubai. Þetta var auðvitað hið versta mál þarsem þetta þýddi jú að tengiflugið til London færi fyrir lítið. Upphófst nú mikið þref og málþóf sem gat svosem ekki endað á neinn hátt nema þannig að taskan var tékkuð inn og miðanum breytt, enda ekkert annað flug í boði útúr landinu þennan dag. Afgreiðslupilturinn sagði okkur að við hefðum bara átt að staðfesta miðann, þessu hefði verið breytt fyrir 3 dögum! En við sögðum á móti að okkur hefði aldrei verið sagt að staðfesta miðann, enda væri hann nýkeyptur og allt það. Aumingjans drengurinn fór bara undan í flæmingi þegar Ása ætlaði að fara að heimta “compensation” þarsem hún myndi að öllum líkindum þurfa að kaupa sér gistingu – enda á Air Where Are We væntanlega enga sjóði til að nota í slíka vitleysu! Við sum sé gátum ekkert gert annað en að skutlast heim og reyna bara að njóta þessara aukaklukkutíma sem við skyndilega áttum saman. Svo var farið aftur á völlinn í tíma til að ná kvöldvélinni og við fjölskyldan biðum þar til við sáum Ásu og hina farþegana vera komna í gegnum þær hindranir sem þarf að fara í gegnum. Við vissum það svo ekki fyrr en hún var komin til Íslands að þarna var fjörið rétt að byrja. Kl 7 var engin vél, hún var víst stopp í Blantyre eftir að hafa seinkað frá Jóhannesarborg eða guð veit hvaðan. Kl tíumínútur yfir átta var þeim tilkynnt að vélin kæmi klukkan átta, og varð víst lítið um svör þegar fólk sagðist nú ekki trúa því!! Þónokkru seinna var lagt af stað og þá til Dar Es Saalam, og komið þangað örfáum mínútum fyrir miðnætti, en þá stóð svo illa á að það átti að fara að malbika flugbrautina þannig að ekki var hægt að halda áfram fyrr en morguninn eftir. Þar sem Air Malawi á auðvitað enga peninga frekar en aðrir hér í landi var fólkinu haldið í vélinni til klukkan 4 um nóttina og þá var því hleypt inn í flugstöðina þar sem það hneig niður örmagna af þreytu og svaf til morguns þegar loks var lagt af stað til Nairobi. Á þessum tímapunkti var allavega Ásu orðið nokk sama um allar tímasetningar og seinkanir og ákvað bara að láta það ráðast hvort hún næði yfirleitt nokkurntíman vél frá Nairobi til London! En með einhverri yfirnáttúrulegri aðstoð gekk það upp og áður en hún vissi af var hún komin upp í vél hjá Kenyan Airways sem átti að fara til London. Þá kom að sjálfsögðu næsta töf sem varði í nokkra klukkutíma. Konurnar við hliðina á henni fóru víst eitthvað að óskapast yfir þessu, en fengu þá beint í æð ferðasögu Ásunnar og ákváðu þá að láta af öllum frekari kvörtunum! Segir svo ekki meira af þessari ferð annaða en það að stúlkan komst heilu og höldnu til landsins bláa, reyndar farangurslaus, en gleymst hafði að setja töskuna hennar með í vélina frá Lilongwe þannig að hún fór ekki fyrr en daginn eftir og þá til Addis Ababa og þaðan Amsterdam og svo til Íslands. Ég hef þó haft fregnir af því að taskan og innihald hennar (að stórum hluta efnisbútar af hinum ágæta efnamarkaði Lilongweborgar) hafa skilað sér til eigandans öllum hlutaðeigandi til mikillar ánægju.
Svona fyrir utan sögur af flugi og töfum þá er hér allt með kyrrum kjörum. Nú er sumarið skollið á með látum og hitinn alveg hroðalegur. Ekki bætir úr skák að báðar loftkælingarnar í húsinu okkar tóku uppá því að bila, og við bíðum eftir því að viðgerðamönnunum þóknist að láta sjá sig. Sennilega er voða mikið að gera hjá þeim greyunum, væntanlega allir sem vettlingi geta valdið að þenja loftkælingarnar til hins ítrasta og þá er ekki að sökum að spyrja, business booms!!
Annars hefur verið svokölluð Malawi Week í skólanum hjá Kristrúnu. Þá kynna grislingarnir sér siði og venjur Malawa. Búið að vera mikið fjör, þau mættu í Malavískum búningum á mánudag, fóru á markað og skoðuðu Malavískan “kofa” á þriðjudag, í gær voru þau frædd um Malavísk leikföng og fengu að prófa, í dag var svo alþjóðlegur dagur með skrúðgöngu og græjum. Flora bakaði fyrir okkur íslenskar pönnukökur sem unginn fór með í skólann til að leyfa hinum að smakka og tókst það afar vel. Markaðsferðin var líka mikið fjör, þau mættu öll með 100 kwatcha svo þau gætu prúttað á markaðnum. Kristrún kom heim með stuttbuxur, bol, karamellur og hafði þar að auki keypt einhverja drykki sem hún og pabbi hennar gæddu sér á í hitanum á markaðnum. Greinilega alvöru bisnisskona að ná að versla allt þetta fyrir andvirði 50 íslenskra króna!
1 Comments:
Úff. Þetta hefur nú verið meira ferðalagið, ekki beint hvejandi að heyra svona ferðasögu.
Ég sé að sumarið er komið hjá ykkur, þið kvartið undan hita á meðan við kvörtum undan kulda hér. Annars segir maður alltaf að við höfum enga ástæðu til að kvarta, nú þegar nóvember er á síðasta sprettinum og við erum í 1-3° hita.
Bestu sólar kveðjur
Svana
Skrifa ummæli
<< Home