mánudagur, desember 12, 2005

Jóla-sumarfrí

Þá er jóla/sumarfríið byrjað í Bishop Mackenzie og frökenin komin í slökun heima í area 10. Ef slökun skyldi kalla því hún er nú almennt ekkert mikið fyrir að taka því rólega. Foreldrarnir fóru svo um helgina og leigðu nokkrar DVD myndir, þar á meðal Mary Poppins, og hefur barnfóstran sú aldeilis náð að heilla yngsta fjölskyldumeðliminn. Myndin búin að fara margar umferðir síðan á laugardag og virðist ekkert lát á vinsældum hennar.

Hér er bara alltaf jafn heitt, og loftkælingarnar alltaf jafn bilaðar. Spurning að reyna nú bara að fara að gera eitthvað róttækt í þeim málum því ekki er nóg að hringja og biðja um viðgerðarmann, það er alveg deginum ljósara. Þetta regntímabil virðist ætla að verða óskup lélegt, hefur lítið sem ekkert rignt, ekki komið skúr hér í höfuðborginni í meira en viku. Þannig að ekki boðar það gott varðandi uppskeru fyrir svanga Malava.

Annars erum við að undirbúa okkur undir komu næstu gesta, en þau koma til landsins núna á miðvikudaginn 14. des. Höfum verið í því að laga gardínur og létum loks verða af því að fara með gardínurnar fyrir herbergi heimasætunnar til skraddarans okkar og settum þær upp um helgina, voða bleikar og fínar. Svo var það moskítónet yfir rúmið sem Mpondo smiður smíðaði fyrir okkur, að ógleymdu allskyns argaþrasi í Indverjabúðum yfir dýnu í blessað rúmið, en það mál endaði þannig að það var keypt dýna í annarri af tveimur stærðum sem til eru. Stærðirnar passa hvorug í rúmið og við nenntum ómögulega að fara að bíða í margar vikur eftir einhverri sérsniðinni dýnu sem myndi svo kannski hvort sem er ekkert passa, þannig að farið var útí ógurlegt möndl með að kaupa svamp aukalega og láta bólstrarann Jonas, vin Mpondos, sníða þetta og setja meðfram hinni dýnunni! Síðustu gestir sváfu í rúminu þannig og kvörtuðu ekki svo við vonum að þetta sé nú allt OK. Svenni var svo fyrir nokkru búinn að fá Mpondo til að smíða þessa fínu sólbaðsbekki sem bólstrarinn var svo fenginn til að redda dýnum í þannig að nú ætti vonandi allt að vera í standi til að taka á móti sóldýrkandi gestum.

Börnin eru svo bara áfram í Ronaldo school og svei mér þá ef hann Joe er ekki að verða mun skárri í enskunni. Kristrún skemmtir sér vel í skólanum þeim og tekur fullan þátt í öllu þar þessa dagana, svo mjög að hún veit ekki alltaf hvort hún er nemandi eða kennari, komum ósjaldan að henni með kennaraprikið á lofti eða með það í hendi á harðahlaupum eftir Joe því hann verður á stundum uppvís að því að taka ekki vel eftir og gleyma að hlýða. Annars er aumingja karlinn hann Ronaldo eitthvað hálf lasinn þessa dagana en druslast nú samt í vinnuna, sjálfsagt hræddur um að þetta vörslufyrirtæki segi sér annars upp. En til stendur að Svenni fari með hann á spítalann á morgun og láti tékka á honum. Vonum bara að þetta sé ekkert alvarlegt.

Hér eru svo allir uppfullir af því að ungfrú Ísland hafi unnið Miss World keppnina. Fór í ráðuneytið í dag og þetta var það fyrsta sem fólkið þar talaði um við mig. Stúlkan var svo á mynd á forsíður dagblaðsins hér og grein um málið með stórri mynd inni í blaðinu. Segið svo að hróður Íslands hvað fegurð varðar berist ekki víða.

föstudagur, desember 02, 2005

Hitabeltisregn

Þá er væntanlega kominn tími á smá “update” héðan úr “hinu hlýja hjarta.” Svosem allt tíðindalaust af suðurvígstöðvunum þannig. Regntímabilið raunar hafið og hitinn því ekki eins hroðalegur og hann er búinn að vera undanfanar vikur. Maður var gjörsamlega að gefast upp og leka niður úr hita, en regnið hefur aðeins bjargað því. Búið að vera bæði gjörsamlega ausandi rigning og svo svona íslensk haustrigning. Svo lætur sólin sjá sig þess á milli þannig að maður gleymi því nú ekki að maður býr sunnan Sahara.

Ekki er nú hægt að segja að það sé sérlega jólalegt hér í Lilongwe eða annarsstaðar í landinu ef útí það er farið. Þó farnar að koma ein og ein jólakúla í búðirnar og sums staðar hægt að verða sér útum sprengiefni fyrir gamlárskvöld!! Þetta er ekkert líkt því sem maður heyrir frá Íslandi þar sem allir virðast vera í miklu jólastuði nú þegar. Maður reynir nú samt kannski að hressa sig við og spá eitthvað í málið þegar meira fer að líða á mánuðinn. Sé nú samt ekki fyrir mér að maður standi í miklum bakstri og brasi í hitanum, ekki að það sé svo mikil breyting frá fyrri árum, maður hefur nú svosem aldrei unnið gullnu sleifina fyrir frábæra húsmæðratakta og gerir varla úr þessu, hehehe.
Svo auðvitað spurning hvort íslenskir jólasveinar nenna að gera sér ferð alla leið til Malawi og gefa litlum grísum í skóinn. Annars hefur Kristrún verið að viðra áhyggjur sínar af þessu við pabba sinn, þ.e. hvernig jólasveinarnir fari nú að því að ferðast svona langt og það í allri þessari rigningu!

Skólinn hjá frökeninni er enn í fullu swingi og verður út næstu viku. Þar eru menn aðeins farnir að undirbúa jólin, verið að teikna og mála jólatré og fleira í þeim dúr. Annars er desember helsti sumarleyfismánuðurinn hér og því fara skólarnir í frí svona snemma. Raunar byrjar fríið í Bishop Mackenzie mun seinna en í ríkisskólunum en þar eru börnin búin að vera í fríi alveg á aðra viku.

Svo er nú heldur rólegra í garðinum hjá okkur eftir að bræðurnir Junior og John fóru í fóstur til ömmu sinnar í Nkhata Bay. Nú eru það bara Joe og Serbina sem halda uppi fjörinu og það verður að segjast að þau komast ekki með tærnar þar sem þeir bræður höfðu hælana hvað fjörstuðulinn varðar. Kristrún hefur verið dugleg að mæta með þeim í Ronaldo School, en afþví þeim gekk ekki alveg nógu vel í prófunum fá þau ekki frí í þeim skóla strax. Það er nokkuð gaman að heyra framburðinn hjá henni þegar hún er að þylja ensku orðin sem hún lærir í Ronaldo School, en þá kemur alltaf svona Malawísk ending á orðin, en hún nær alveg að aðgreina þetta frá því þegar hún talar enskuna annars. Svenni komst svo að því núna nýlega að mamma Floru, amma strákanna, tekur öll launin af Floru kerlingargreyinu, þannig að hann vill meina að Flora vilji helst að við borgum sér minna út og geymum fyrir hana pening. Maður þarf að spá í þetta. En svona er þetta hér, þeir sem hafa atvinnu og einhverjar tekjur þurfa að sjá fyrir heilu hersingunum af skyldmennum sem geta ekki séð fyrir sér, þannig að það verður nú oft lítið eftir hjá fólki til að leggja fyrir eða reyna að bæta sinn hag á einhvern hátt.

Svo eigum við von á gestum eftir helgina, frænka mín sem er búsett í því hrjáða landi Zimbabwe ætlar að keyra hingað uppeftir með mömmu sína, föðursystur mína, sem er í heimsókn hjá henni ásamt vinkonu sinni. Með þeim konunum koma svo ung hjón sem ætla að vera hérna hjá okkur líka. Við hlökkum mikið til að fá þau öll hingað til okkar og er Kristrún þegar farin að plana að það þurfi nú að plana ferð fyrir þau til Monkey Bay!