mánudagur, desember 12, 2005

Jóla-sumarfrí

Þá er jóla/sumarfríið byrjað í Bishop Mackenzie og frökenin komin í slökun heima í area 10. Ef slökun skyldi kalla því hún er nú almennt ekkert mikið fyrir að taka því rólega. Foreldrarnir fóru svo um helgina og leigðu nokkrar DVD myndir, þar á meðal Mary Poppins, og hefur barnfóstran sú aldeilis náð að heilla yngsta fjölskyldumeðliminn. Myndin búin að fara margar umferðir síðan á laugardag og virðist ekkert lát á vinsældum hennar.

Hér er bara alltaf jafn heitt, og loftkælingarnar alltaf jafn bilaðar. Spurning að reyna nú bara að fara að gera eitthvað róttækt í þeim málum því ekki er nóg að hringja og biðja um viðgerðarmann, það er alveg deginum ljósara. Þetta regntímabil virðist ætla að verða óskup lélegt, hefur lítið sem ekkert rignt, ekki komið skúr hér í höfuðborginni í meira en viku. Þannig að ekki boðar það gott varðandi uppskeru fyrir svanga Malava.

Annars erum við að undirbúa okkur undir komu næstu gesta, en þau koma til landsins núna á miðvikudaginn 14. des. Höfum verið í því að laga gardínur og létum loks verða af því að fara með gardínurnar fyrir herbergi heimasætunnar til skraddarans okkar og settum þær upp um helgina, voða bleikar og fínar. Svo var það moskítónet yfir rúmið sem Mpondo smiður smíðaði fyrir okkur, að ógleymdu allskyns argaþrasi í Indverjabúðum yfir dýnu í blessað rúmið, en það mál endaði þannig að það var keypt dýna í annarri af tveimur stærðum sem til eru. Stærðirnar passa hvorug í rúmið og við nenntum ómögulega að fara að bíða í margar vikur eftir einhverri sérsniðinni dýnu sem myndi svo kannski hvort sem er ekkert passa, þannig að farið var útí ógurlegt möndl með að kaupa svamp aukalega og láta bólstrarann Jonas, vin Mpondos, sníða þetta og setja meðfram hinni dýnunni! Síðustu gestir sváfu í rúminu þannig og kvörtuðu ekki svo við vonum að þetta sé nú allt OK. Svenni var svo fyrir nokkru búinn að fá Mpondo til að smíða þessa fínu sólbaðsbekki sem bólstrarinn var svo fenginn til að redda dýnum í þannig að nú ætti vonandi allt að vera í standi til að taka á móti sóldýrkandi gestum.

Börnin eru svo bara áfram í Ronaldo school og svei mér þá ef hann Joe er ekki að verða mun skárri í enskunni. Kristrún skemmtir sér vel í skólanum þeim og tekur fullan þátt í öllu þar þessa dagana, svo mjög að hún veit ekki alltaf hvort hún er nemandi eða kennari, komum ósjaldan að henni með kennaraprikið á lofti eða með það í hendi á harðahlaupum eftir Joe því hann verður á stundum uppvís að því að taka ekki vel eftir og gleyma að hlýða. Annars er aumingja karlinn hann Ronaldo eitthvað hálf lasinn þessa dagana en druslast nú samt í vinnuna, sjálfsagt hræddur um að þetta vörslufyrirtæki segi sér annars upp. En til stendur að Svenni fari með hann á spítalann á morgun og láti tékka á honum. Vonum bara að þetta sé ekkert alvarlegt.

Hér eru svo allir uppfullir af því að ungfrú Ísland hafi unnið Miss World keppnina. Fór í ráðuneytið í dag og þetta var það fyrsta sem fólkið þar talaði um við mig. Stúlkan var svo á mynd á forsíður dagblaðsins hér og grein um málið með stórri mynd inni í blaðinu. Segið svo að hróður Íslands hvað fegurð varðar berist ekki víða.

3 Comments:

At 1:02 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Alveg get ég séð frökenina fyrir mér með kennaraprikið. Hún á s.s. ekki langt að sækja stjórnsemina:o)

Já, svo er það blessað veðrið, það er ekki alltaf eins og maður vll hafa það.

Bestu sumar-jólakveðjur
Svana

 
At 7:13 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Kæru Sigfríður og Kristrún Ingunn,
við vorum núna fyrst að frétta af síðunni. Óskum Kristrúnu til hamingju með 5 ára afmæli í fyrra!
Kveðja
Ásta og Hjördís Birna

 
At 3:33 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Hæ,hæ! Sissa mín, förum við ekki að fá meiri fréttir fljótlega? Er farin að bíða eftir sögum úr afmælisveislu litla einræðisherrans! Svo fer ég að reyna að druslast til að skrifa nokkrar línur! Kær kveðja Hólla.

 

Skrifa ummæli

<< Home