þriðjudagur, janúar 31, 2006

Af sérhönnuðum prikum, lemontrjám og fleiru

Jæja, ekki er það nú gott að þurfa að byrja hverja færslu hér með því að afsaka hvað það er langt síðan síðast – en það má vona að það standi til bóta, eða annars er kannski öllum sama;)

En hér hefur lífið gengið sinn vanagang frá áramótum. Skólinn byrjaður og kominn á fullt skrið, heimalærdómur á hverjum degi þessa önnina sem er bara gott mál. Kristrún alltaf jafn ánægð í skólanum, má ekki missa af neinu, var t.d. frekar miður sín í síðustu viku þegar hún gerði sér grein fyrir því að með því að fara með okkur til Monkey Bay þá myndi hún missa af skólanum á föstudeginum. Sættist nú samt á það að koma, alltaf jafn gaman í Chirombo, og svo fannst henni ekki verra að þær systur Imba og Þura yrðu samferða okkur niðreftir.

Ferðin til Monkey Bay gekk vel, þar var allt með kyrrum kjörum. Kristrún lék sér við vini sína á ströndinni. Tíndi sítrónur úr trénu við Strandkot, reyndar heita þær ekki sítrónur hjá henni, heldur lemon. Við mæðgurnar urðum raunar mjög imponeraðar um daginn þegar við komumst að því að í garðinum okkar hér í Lilongwe er, hvorki meira né minna, en okkar eigið “lemontré”!! KI fannst við ekki lítið heppin fjölskylda að vera bæði með Mangotré og Lemontré í garðinum, fyrir svo utan öll önnur gæði sem honum fylgja. Verst bara að henni dettur ekki í hug að leggja sér neitt slíkt til munns! Vill frekar að sinn matur komi úr dýraríkinu. En aftur að Monkey Bay, þar kom þetta líka ógurlega úrhelli á laugardeginum, ætlaði aldrei að hætta að rigna, og stráþakið í Strandkoti lak svona hér og hvar. Svosem ekkert til vandræða samt. Á sunnudeginum var svo aftur komin þessi líka blíða, algjörlega heiðskírt og malavískt sólskin þannig að við íslendingarnir drifum okkur í siglingu á vatninu, á Möllunni góðu. Það var yndislegt að vanda, aðeins farið í land í einu þorpinu til að dæla vatni úr bátnum og veita þorpsbúum eitthvað til að hlæja að! Svo siglt áfram og stoppað til að synda og hafa það notalegt.

Við lentum reyndar í smá skakkaföllum um daginn þegar sjálf húsfrúin (ef frú skyldi kalla) kom að næturverðinum við þá iðju að reyna að fiska töskuna hennar útum opinn glugga með sérhönnuðu priki. Frúin ærðist af reiði, öskraði og æpti, stökk að glugganum og hrifsaði töskuna sína, hljóp með hana inn í stofu og þá kom til kasta heimilisföðurins að taka málið í sínar hendur, sem hann og gerði. Hann náði kauða og kallaði út liðsinni með því að ýta á neyðarhnapp. Þetta voru ógurleg læti sem enduðu í því að verðirnir sem komu náðu að finna prikið og kauði var færður í burtu. Nóg af svona leiðindasögum, en þetta varð til þess að við tókum okkur aðeins í gegn, fengum okkur gardínur fyrir vinnuskot og stofur og reynum að vera ábyrg og ekki með töskur á glámbekk!!

Nóg í bili, fleiri sögur úr sveitinn síðar ....

laugardagur, janúar 07, 2006

“Skítugar tásur í sófanum”

Áður en reynt verður að setja inn fátæklegar fréttir af nýliðnum gestakomum, jólum, afmæli og áramótum verður að fara fram örstutt lýsing á atburðum dagsins í dag. Í dag langaði okkur gamlingjana sum sé að bregða okkur aðeins af bæ og skreppa eitthvert útfyrir bæinn. Þetta þótti okkur upplagt þarsem það er jú laugardagur og svosem ekkert annað sem stóð til. Svenni byrjaði reyndar daginn á því að fara uppúr fimm niður á rútustöð að sækja Mary, systur Floru, sem var að koma með rútunni frá Mzuzu með þá Junior og John í farteskinu, en þeir hafa dvalið ásamt Mary móðursystur hjá ömmu gömlu í þorpinu í Nkhata Bay síðan snemma í desember. En eftir að hafa tekið því rólega í morgun og fengið okkur morgunmat og vesenast fram og til baka ákváðum við sum sé að dífa okkur af stað. En þá kom smá babb í bátinn, heimasætan, þessi sem er nýorðin fimm ára tók það ekki í mál að fara að þvælast eitthvað af bæ og það algjörlega að óþörfu. Sagðist ekkert kæra sig um það, hún vildi bara vera heima að leika sér með vinum sínum og gera eitthvað skemmtilegt. Við værum alltaf að fara útúr bænum og í bæinn og gera eitthvað hundleiðinlegt. Fortölur voru reyndar en dugði skammt, með grátstafinn í kverkunum var okkur tilkynnt að það væri hvortsemer miklu betra þegar hún fengi bara að vera ein (les Flora að passa) heima því þá gæti hún bara gert það sem sér sýndist, til dæmis að vera með skítugar tásur í sófanum, hafa sjónvarpið hátt stillt, horfa á video ef hún vildi og vera úti þegar hún vildi. Þegar foreldrarnir væru heima væri hinsvegar stanslaust verið að banna sér eitthvað, alltaf að láta lækka sjónvarpið og rífast yfir skítugum tásum í sófanum! Jamm, það er erfitt að vera fimm ára og þurfa að eiga við sérviskuna í þessum gamalmennum stanslaust. Það fór því svo að Flora var beðin fyrir ungann og foreldrarnir fóru í sína dagsferð, lentu í smá hremmingum en komust þó heil á leiðarenda ekkert mjög löngu seinna en þau höfðu upphaflega ætlað sér.

En að öðru. Gestirnir okkar, þau Júlíana, Palli og Sindri eru komin og farin. Þau voru hjá okkur í tvær vikur og áttum við jólin saman. Við fórum öll til Monkey Bay og þar sáu þau ýmislegt. Fóru í siglingar á vatninu, heimsóttu þorp, sáu Gule waKulu dansa og sitthvað fleira. Við drifum okkur svo öll saman í safari í Liwonde. Gistum í eina nótt í góðu yfirlæti. Sáum fullt af flóðhestum, krókódílum, fílum, antilópum og allskyns fugla sem ég kann ekki að nefna. Kristrún var hrifnust af afríska fiskierninum, fannst það flottur og merkilegur fugl. Svo þótti henni ansi gaman að sjá baby krókódíl!

Jólin voru svo haldin með pompi og prakt hér í Lilongwe. Þau hefðu nú kannski þótt heldur fátækleg á íslenskan mælikvarða, en við nenntum ekkert að vera með jólatré eða skraut, enda finnst manni það vera dálítð útúr kú hér í hitanum. En KI reddaði því á sinn hátt, hún setti bara kort sem hún hafði teiknað í skólanum með mynd af jólatré á mitt stofugólfið, raðaði pökkunum í kring, og þarmeð var því máli reddað!

Við familían fórum svo niður til Monkey Bay aftur þegar gestirnir voru farnir og þar var haldið uppá 5 ára afmæli heimasætunnar. Með í farteskinu var fjöldinn allur af pylsum og gomma af kexi sem voru trakteringarnar í afmælinu. Það fór svo þannig fram að daginn áður lét KI vini sína á ströndinni vita að kl 2 daginn eftir ættu þeir að mæta í partý. Við fengum svo Gloriu, nýju starfsstúlkuna í Strandkoti, til að stýra herlegheitunum og gerði hún það af miklum myndarbrag. Davie garðyrkjumaður og vinur hans voru settir í að redda grillinu og fórst það vel úr hendi. Börnin, eitthvað á milli 50 og 60 fengu svo pylsu, brauð og tómatsósu, drukku djús með og enduðu svo á því að gæða sér á kexi. Gloria stýrði því að þau komu í hópum, þvoðu sér um hendurnar, settust niður og fengu veitingar, færðu sig svo aðeins frá, næsti hópur kom og svo koll af kolli. Kristrún sá svo sjálf um að bjóða uppá kex og fórst þetta bara vel úr hendi. Hún var voða dugleg við að passa uppá að minnstu börnin fengju líka og var komin í það að gefa litlum kútum að drekka og guð veit hvað. Að þessari veislu lokinni færðust hátíðahöldin inn í strandkot en þá komu Ragnhildur, Skarphéðinn, Imba, Þura og Indriði og borðuðu smartieskökuna sem Flora bakaði og Kristrún sá um skreytingar á. Þær Kristrún og Þura voru svo með börnin á ströndinni í leikjum fram undir myrkur og fóru allir glaðir úr veislunni.

Áramótunum eyddum við svo með Ragnhildi, Skarphéðni og börnum. Borðuðum saman góðan mat og svo voru þau með myndasýningu fyrir þorpsbúa á veröndinni hjá sér. Það var virkilega skemmtilegt, flottar myndir og mikið fjör. Fjörið hófst fyrst fyrir alvöru þegar veitingar voru bornar fram en þær hurfu einsog dögg fyrir sólu og var mikill handagangur í öskjunni við að verða sér úti um snakk og gos. En alveg ótrúlegt magn af snakki hvarf einsog dögg fyrir sólu á nákvæmlega engum tíma. Gestirnir týndust svo í burtu og við fórum í að skjóta upp rakettum einsog lög gera ráð fyrir að gert sé á gamlárskvöld. Þetta var fyrsta gamlárskvöldið sem KI nær að vaka fram yfir miðnætti, enda var litla kerlingin orðin ansi þreytt þegar heim í Strandkot var komið. Hálfskældi yfir því hvað þetta væri nú allt erfitt, hún þyrfti bara gjörsamlega að gera allt á þessu heimili, taka upp þessi blöð (pappír sem hún hafði verið að teikna á fyrr um daginn) og fyrr um daginn hefði hún sjálf þurft að þvo sundbuxurnar sínar (hámark ósanngirninnar) þar að auki ætti hún fullt af einhverju ónýtu drasli í Lilongwe, til dæmis fjöldann allan af blýöntum og stokleðrum og yddurum sem væru bara ónýtt drasl og enginn virtist hafa minnstu áhyggjur af þessu! Móðirin sór og sárt við lagði að þetta skyldi allt lagfært á nýju ári og með það sofnaði frökenin inn í nýtt ár!