Af sérhönnuðum prikum, lemontrjám og fleiru
Jæja, ekki er það nú gott að þurfa að byrja hverja færslu hér með því að afsaka hvað það er langt síðan síðast – en það má vona að það standi til bóta, eða annars er kannski öllum sama;)En hér hefur lífið gengið sinn vanagang frá áramótum. Skólinn byrjaður og kominn á fullt skrið, heimalærdómur á hverjum degi þessa önnina sem er bara gott mál. Kristrún alltaf jafn ánægð í skólanum, má ekki missa af neinu, var t.d. frekar miður sín í síðustu viku þegar hún gerði sér grein fyrir því að með því að fara með okkur til Monkey Bay þá myndi hún missa af skólanum á föstudeginum. Sættist nú samt á það að koma, alltaf jafn gaman í Chirombo, og svo fannst henni ekki verra að þær systur Imba og Þura yrðu samferða okkur niðreftir.
Ferðin til Monkey Bay gekk vel, þar var allt með kyrrum kjörum. Kristrún lék sér við vini sína á ströndinni. Tíndi sítrónur úr trénu við Strandkot, reyndar heita þær ekki sítrónur hjá henni, heldur lemon. Við mæðgurnar urðum raunar mjög imponeraðar um daginn þegar við komumst að því að í garðinum okkar hér í Lilongwe er, hvorki meira né minna, en okkar eigið “lemontré”!! KI fannst við ekki lítið heppin fjölskylda að vera bæði með Mangotré og Lemontré í garðinum, fyrir svo utan öll önnur gæði sem honum fylgja. Verst bara að henni dettur ekki í hug að leggja sér neitt slíkt til munns! Vill frekar að sinn matur komi úr dýraríkinu. En aftur að Monkey Bay, þar kom þetta líka ógurlega úrhelli á laugardeginum, ætlaði aldrei að hætta að rigna, og stráþakið í Strandkoti lak svona hér og hvar. Svosem ekkert til vandræða samt. Á sunnudeginum var svo aftur komin þessi líka blíða, algjörlega heiðskírt og malavískt sólskin þannig að við íslendingarnir drifum okkur í siglingu á vatninu, á Möllunni góðu. Það var yndislegt að vanda, aðeins farið í land í einu þorpinu til að dæla vatni úr bátnum og veita þorpsbúum eitthvað til að hlæja að! Svo siglt áfram og stoppað til að synda og hafa það notalegt.
Við lentum reyndar í smá skakkaföllum um daginn þegar sjálf húsfrúin (ef frú skyldi kalla) kom að næturverðinum við þá iðju að reyna að fiska töskuna hennar útum opinn glugga með sérhönnuðu priki. Frúin ærðist af reiði, öskraði og æpti, stökk að glugganum og hrifsaði töskuna sína, hljóp með hana inn í stofu og þá kom til kasta heimilisföðurins að taka málið í sínar hendur, sem hann og gerði. Hann náði kauða og kallaði út liðsinni með því að ýta á neyðarhnapp. Þetta voru ógurleg læti sem enduðu í því að verðirnir sem komu náðu að finna prikið og kauði var færður í burtu. Nóg af svona leiðindasögum, en þetta varð til þess að við tókum okkur aðeins í gegn, fengum okkur gardínur fyrir vinnuskot og stofur og reynum að vera ábyrg og ekki með töskur á glámbekk!!
Nóg í bili, fleiri sögur úr sveitinn síðar ....
12 Comments:
Alltaf gaman að fá fréttir af ykkur! Takk fyrir og hafið það gott :o) Elín et al
Vei, vei, gaman að fá fréttir aaf ykkur.
Að gefnu tilefni tek ég það fram að í hér í litla garðinum í Norðurmýrinni eru tvö eplatré, plómutré og kirsuberjatré... ég segi samt ekki neitt um uppskeruna að svo komnu máli ;)
Vá, heldur betur exotískir garðar í Norðurmýrinni! Maður verður að kíkja á þetta í sumar og planleggja fyrir tilvonandi garðinn sinn í úthverfum stórreykjavíkursvæðisins;)
Það er alltaf rok í úthverfum og þar þrífst ekkert af viti.
jú jú, í mínu tilvonandi úthverfi er bara gjörsamlega eldgamall skógur, eða þannig!!! maður færi nú ekki að flytja í hvaða úthverfi sem er...
Talandi um úthverfi, verð ég að bæta því við að í hinum lygna Norðurbæ Hafnarfjarðar ræktum við ávaxtatré og fengum t.d. þessa fínu plómuuppskeru síðasta haust!
Sissa, farin að huga að heimferð?
Það er alltaf gaman að heyra frá ykkur!
kv Eydís
já við komum heim vonandi um miðjan júní -- þyrfti einmitt að fá Kára í að ath garðinn á nýja staðnum fyrir mig! Svo er KI orðinn svo mikill Malavi að það þarf að fara að íslenska hana aðeins aftur!!
Það vex allt mjög vel í Kópavogi, hvort sem er í vesturbæ eða austur, hvort sem er gróður eða annað.
Hlakka til að sjá ykkur í sumar
kveðja
Svana
Ég vil að það sé bloggað oftar hérna :)
Sammála síðasta ræðumanni
já já, þetta fer allt að koma ... vonandi, á efni í fullt af færslum, bara að druslast í að setja þetta á blað/skjá!! Hver veit nema maður fyllist fítonskrafti í kvöld og skrifi gleði og skemmtisögur af sér og sínum!
Skrifa oftar, þá safnast ekki efnið upp ;)
Skrifa ummæli
<< Home