þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Kristrún, Kristín og Dreki á Þeistareykjum

Vorum að fá þessa mynd frá því í sumar senda, stóðst ekki mátið að skella henni hér inn. Ótrúlega sætar guðsystur að gobbast á Þeistareykjum sl sumar!

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Ferð til Zimbabwe kafli 1 - í hverjum við komumst frá Lilongwe til Blantyre og þaðan til Tete

Jæja, þá er orðið svo langt síðan Zimbabweferðin var farin að það liggur við að maður muni þetta ekki lengur .... og þó! Allavega þá lögðum við af stað strax eftir hádegi á föstudegi, Svenni var búinn að setja allt í bílinn og sótti okkur konurnar svo, aðra í vinnuna og hina í skólann. Þetta var síðasta daginn fyrir miðannarfrí hjá Kristrúnu og mikið að gera í skólanum, þau máttu mæta í “venjulegum” fötum og það þykir alltaf mikið fjör. Sum sé, brunað beint úr skólanum og suður til Blantyre, en við höfðum ákveðið að gista þar og leggja svo af stað að landamærunum á laugardagsmorgni. Sú ferð gekk öll mjög vel. Komum til Blantyre milli fjögur og fimm, kíktum aðeins í mallið og keyptum nesti fyrir ferðina og litum að sjálfsögðu við í “Game” nýju Suður-Afrísku búðinni sem er að revolutionera innkaupum í Malawi! Þar náði KI að svæla útúr foreldrum sínum Barbie litabók og liti, sem komu sér raunar afar vel á löngum keyrslum.

Eftir góða hvíld og nætursvefn á Mount Soche hótelinu, of góða í raun því frúin var í svo miklum makindum að það var engin leið að svæla hana fram úr rúminu nægilega snemma, var farið í morgunverð og svo beint í það að láta setja um hundrað lítra af díseli á brúsa og fylla bílinn. Afar áhugaverð aðgerð, bensínpiltarnir höfðu mikið gaman af þessu og við líka, og mynduðum auðvitað aðgerðina í bak og fyrir. Með litla jeppann fullan af díselbrúsum var svo keyrt sem leið liggur í áttina að Mwanza og landamærunum við Mozambique. Þar gekk allt vonum framar þannig séð, keyptum tryggingu á bílinn, en Mozambique er einhverra hluta vegna ekki inní COMESA tryggingapakkanum sem maður getur keypt hér og gildir í mjög mörgum löndum í sunnan- og austanverðri Afríku. Tryggingadílerinn aðstoðaði okkur svo við allt pappírsstússið, en maður þarf auðvitað að láta tékka á passanum og láta stimpla hann, sem þeir í Mozambique láta mann borga 2 dollara á mann fyrir, þ.e. bara fyrir stimpilinn, maður búinn að borga áður fyrir visað. Þá kom í ljós að þeir heimtuðu visa fyrir Kristrúnu, sem okkur hafði sérstaklega verið sagt af sendiráðinu í Lilongwe að þyrfti ekki! Mér fannst þetta frekar fúlt og var eitthvað að rífa mig við þá, en allt kom fyrir ekki, Svenni bað mig í guðanna bænum að borga bara fyrir þetta visa það þýddi ekkert að þræta við þá, og Kristrún reyndi hvað hún gat að koma mér til aðstoðar, sagðist þurfa að ganga í málið, þessir karlar væru að “pína mömmu mína”!! Það fór svo þannig að ég varð að gefa mig og kaupa visa fyrir frökenina, sem var tvöfalt dýrara en þau sem við höfðum fengið í sendiráðinu, og í raun meira því okkar voru “double entry” en hennar bara “single”. Já, svo þarf að fá innflutningsspappíra fyrir bílinn, skrifa í margriti upplýsingar um vélarnúmer og guð veit hvað, borga mengunarskatta og allt í þeim dúr. En allt gekk þetta að lokum og við gátum haldið ferðinni áfram. Framanaf fannst okkur ekki mikill munur á Mozambique og Malawi, svipuð þorp og allt það. Það var mjög þurrt allt og skrælnað, sem kannski var ekki nema von miðað við árstíma. Stoppuðum aðeins til að fá okkur nesti á leiðinni, ég hafði á orði að það væri nú svosem ekkert óþægilega heitt, en þegar hitinn var mældur þá var hann rétt um 40 stig. Svona getur þetta verið skrítið. Keyrðum svo í gegnum Tete, sem virtist hin myndarlegasta borg, sáum raunar ekki mikið af henni, vegurinn liggur í útjaðri borgarinnar, en þurftum þó aðeins að fara inn í bæinn til að kaupa dísel. Lentum svo í smá ævintýri þegar við vorum stoppuð af löggunni þarsem við vorum að keyra rétt útúr borginni. Okkur þótti þetta skrýtið, en stoppðum að sjálfsögðu og Svenni stökk út að tala við þá félaga. Þeir stóðu þarna heillengi og spjölluðu eitthvað fram og til baka, og endaði með því að mér var farið að leiðast þófið og stökk út, en þá kom í ljós að þeir höfðu sum sé stoppað okkur fyrir hraðakstur, við vorum á sirka 60, en þeir héldu fram að hámarkshraðinn væri 50 á þessu svæði! Þeir höfðu ætlað að sekta okkur um eina milljón meticals, veit svosem ekki nákvæmlega hversu mikið það er í annarri mynt, en okkur krossbrá að heyra svona upphæð og Svenni sagði þeim að ef svo væri þá væri bara best að fara á lögreglustöðina og ganga formlega frá þessu máli. Eitthvað virtist þeim ekki lítast vel á þær málalyktir. Ég kom svo inn í þetta og fór að tala portúgölsku við þá löggumenn, merkilegt nokk skildi ég þá bara sæmilega þrátt fyrir mína brasilísku portúgölsku sem ekki hefur verið notuð svo árum skiptir, og þeir skildu mig bara vel líka. Ég fór í það að drepa málinu á dreif og bað þá að segja okkur hvar við gætum keypt dísel, sem þeir gerðu skilmerkilega og eftir það var málið í raun dautt. Við keyrðum til baka inn í bæinn og á bensínstöðina, þarsem bensínafgreiðslukarlinn skildi portúgölskuna mína bara ágætlega líka!! Við svo til baka, og viti menn, erum stoppuð aftur af sömu löggumönnum bara lengra í burtu. En þá var ástæðan sú að þeir skildu ekkert í því að við væum komin þarna aftur, höfðum við ekki ætlað að fara í bæinn! En ég útskýrði að við værum á leiðinni til Zimbabwe og þeir bara vinkuðu okkur burt, sjálfsagt dauðfegnir að losna við þessa furðufugla úr sinni lögsögu.

Framhald síðar (með þessu áframhaldi verðum við í marga mánuði að segja söguna ... afar langar og detaljeraðar lýsingar á nákvæmlega engu ... fjörið!)

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Zimbabwe

Hér koma loksins nokkrar myndir úr ferðalaginu til Zimbabwe. Setjum fleiri inn við tækifæri, þetta tekur svo langan tíma þegar nettengingin er jafn seinvirk og hér. Ferðasagan fer að koma ...
Í sínum prívat Safaribíl í Hwange


Á Granite Ridge í Matopos

Bláskjár í Bulawayo