mánudagur, janúar 08, 2007

Hippo Alert!

Þá fer rútínan að komast í samt lag, skólinn að byrja á morgun og þarmeð það að þurfa að rífa sig upp klukkan 6 á morgnana. Fer nú misvel í fólk! Annars er bara gott í okkur hljóðið á nýju ári hér í Malawi. Hér bara rignir og rignir, já og rignir meira. En það er bara allt í góðu og við hugsum bara að þetta sé nú alsendis ljómandi ágætt fyrir vini okkar Malavana og maísinn þeirra og allt það.

Annars gerðist nokkuð óvænt í gær, sunnudag. Við vorum þá ennþá í Chirombo, og fengum upphringingu frá okkar góðu nágrönnum þar um að það hefðu heyrst undarleg hljóð og í kjölfarið sést flóðhestur í vatninu bara rétt hjá okkur. Við þustum út á verönd að athuga þetta mál, og jú, þarna svamlaði einmana flóðhestur bara rétt við eyjuna litlu sem er bara svona í seilingarfjarlægð frá okkur, eða þannig. Okkur þótti þetta merkilegt mjög, því allan þann tíma sem við höfum verið hér hefur ekki sést til flóðhesta þarna hjá okkur, né krókódíla, en sögurnar segja að krókó-arnir séu stundum hinumegin, eða bakvið Höfða. Vonandi samt að þetta fari ekki að verða að venju, manni finnst nú svona minna spennandi að svamla þarna í vatninu með hippo 10 metra frá sér!

Svo má segja að það hafi verið svona nokkurskonar aukajól og -afmæli í dag, en loksins barst póstur frá Íslandi, jólakort og allskyns pakkar. Kristrún kunni sér ekki læti, og sagði margsinnis “það er alveg brjálað þetta fólk” og átti við gefendurnar!!! Þökkum ykkur öllum kærlega fyrir, jólakort, myndir, gjafir og fínerí.

1 Comments:

At 2:20 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Gott að þetta var hippo en ekki Croco.... úfff.

Frábært að heyra svona skemmtisögur frá Afríku.

Knús til allra.

Elín ("óbrjálaða" sem sendi bara jólakveðju í gegnum tölvu)

 

Skrifa ummæli

<< Home