miðvikudagur, janúar 03, 2007

Rafmagnsraunir, afmæli og áramót

Jæja, jólin liðu sum sé í vellystingum praktuglega í Zomba. Aðfangadagskvöld fínt og rólegt, góður matur og allt það. Á jóladag var svo mikið fjör, þá var boðið upp á hádegisverð og það svoleiðis fylltist allt af fólki að þeir réðu varla við neitt og voru farnir að ferja inn borð og skrifstofustóla til að fólk fengi sæti. Allt gekk þetta þó ágætlega, fullt af krökkum og Kristrún komin í kompaní með stelpum að hlaupa þarna um garðinn, þær voru að lokum komnar í einhvern löggu og bófaleik, voða skvízur.

Keyrðum svo heim á annan í jólum. Þar var allt með kyrrum kjörum, en ekki lengi ...
Við vorum ekki búin að vera heima nema kannski klukkutíma þegar þessi líka svakalega rigning skellur á með tilheyrandi þrumum og eldingum. Allt í einu kemur svo ógurlegur skellur og allt rafmagn fer af. Við sáum fyrir okkur að þetta ástand gæti nú tekið einhvern tíma, og hringdum í ESCOM til að fá einhverjar upplýsingar. Þar sögðu þeir okkur að eldingu hefði lostið niður í rafmagnslínu þarna í okkar hverfi og það yrði farið í að gera við. Þetta var auðvitað svosem ekkert spes skemmtilegt, enda við með rafmagnseldavél og því ekki fyrirsjáanleg mikil eldamennska, jú og hitinn náttúrlega hrikalegur og engar loftkælingar, svo ekki sé minnst á ísskápinn og hans innihald!! En til að gera langa sögu stutta þá varði þetta rafmagnsleysi í vel ríflega sólarhring, áður en yfir lauk var farið að flæða útúr ísskápnum, við orðin svöng og kaffiþyrst að ekki sé talað um sveitt og pirruð!!! Ýmsar leiðir voru reyndar til að redda málum með ísskápinn, við þvældumst út um allan bæ að leita að ísmolum til að bjarga áramótakjötinu sem feðginin höfðu keypt sér í Jóhannesarborg. En þá þurfti náttla akkúrat að vera transport problem hjá ísmoladíler Lilongweborgar þannig að ekki gekk það;) Við vorum óskup fegin þegar rafmagnið kom loks á, fórum í að redda því sem reddað varð úr ísskápnum (og sem betur fer var kjötið OK) og koma hlutum í skorður aftur. Erum svo búin að fá leyfi til að kaupa rafstöð þannig að þetta ætti ekki að verða vandamál í framtíðinni.

Þeyttumst svo niður til Monkey Bay. Þar var haldið uppá afmæli Kristrúnar þann þrítugasta. Það var með sama sniði og í fyrra, pylsupartí á ströndinni. Eitthvað um 60 krakkar mættir til að raða í sig pylsum og svo kexi í eftirmat. Fór allt ágætlega fram, vorum með fullt af fólki til að vinna í þessu með okkur og stýra liðinu. Svo varð allt brjálað undir lokin þegar þau fengu öll blöðrur og þvílík læti og fjör á ströndinni að maður vissi varla hvað maður átti af sér að gera! Afmælisbarnið skemmti sér ágætlega, var mikið í því að stýra þarna aðgerðum og sjá til þess að allir væru nú með nóg að bíta og brenna – en stakk svo reglulega af með einhverjum vinum sínum og klifraði upp í tré og gerði allskyns kúnstir.

Við hjúin stóðum svo sveitt yfir pottunum á gamlársdag, elduðum hamborgarhrygginn sem keyptur var í Suður Afríku, og allskyns dótarí með. Frekar mikið fjör að standa í þessu þarna í strandkofanum, en allt gekk þetta svosem áfallalaust og maturinn var góður, eða allavega það sem ég át af honum, lét hamborgarhrygginn eiga sig. Vorum svo mest í letimalli á nýársdag, nema KI auðvitað sem hamaðist á ströndinni sem aldrei fyrr, en svo var vinnan mín niðurfrá, það er Adult Literacy fólkið mitt, með áramótaboð sem við mættum í. Stoppuðum ekkert mjög lengi en þetta var ágætt, svona týpískt malavískt boð, ekkert of mikið fjör, allir voða virðulegir og sitja og raða í sig mat og drykk, hverfa sko ófáar kók og bjórflöskurnar ofaní liðið!!

3 Comments:

At 3:48 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Gleðilegt ár elskurnar og til lukku með stelpuna!

Kærar kveðjur frá Íslandi.

Elín

 
At 5:43 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Sæl Sissa og gleðilegt nýtt ár. Bestu afmæliskveðjur til Kristrúnar Ingu.
Sjáumst á nýja árinu.
Birgitta

 
At 2:13 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Sæl og gleðilegt nýtt ár!
- og til hamingju með daginn.

Alltaf gaman að fylgjast með ykkur á blogginu.

Bestu kveðjur
Eydís

 

Skrifa ummæli

<< Home