Tannálfur
Þá gerðust stórtíðindi í hádeginu í dag, Kristrún Ingunn missti fyrstu tönnina, en þessarar stundar hefur verið beðið lengi! Blessuð tönnin, sem er í neðri góm, búin að vera laus lengi og fullorðinstönnin komin upp fyrir aftan (vonandi ekki tannréttingadæmi í uppsiglingu). Í dag var tönnsla svo orðin svo lufsuleg að frauka átti erfitt með að borða í skólanum og bað um að fá að fara með eitthvað mjúkt með sér á morgun, t.d. brauð með engri skorpu, þegar móðirin var búin að gera henni ljóst að það væri kannski ekki mjög hentugt að taka með sér ís og geyma hann í töskunni í nokkra tíma í 40 stiga hita!! Hún hefur líka haft af því miklar áhyggjur lengi að foreldrunum gæti dottið í hug að ráðast á sig, setja tvinna utanum tönnina og kippa henni úr, eftir afar ýktar frægðarsögur móðurinnar af því hvernig móðurafinn hlustaði ekki á neitt víl og vol og kippti tönnunum úr henni með spotta!!! Málið endaði svo á því að tannálfurinn sjálfur bað pabba sinn um að kippa tönninni, móðirin hvarf á braut og var varla komin inn ganginn þegar siguróp barst um húsið .... hún er farin .... og það var ekki einusinni sárt. Svo á að setja dýrgripinn undir koddann í kvöld og athuga hvort "Tooth Fairy" mæti ekki á svæðið og taki tönnina og skilji eftir pening - en það verður að vera alvöru bréfpeningur, þótti hálf púkó að mamman hefði bara fengið smápening fyrir sínar tennur þarna í gamla daga en ekki bréfpening.Ferðasögur frá Zimbabwe eru svo á leiðinni - sem og væntanlega sögur af ferðum til Monkey Bay og Blantyre .... meira flakkið á einni familíu.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home