Kuldi og trekkur við Apaflóa
Vorum í Monkey Bay frá fimmtudegi til sunnudags. Þar var ótrúlega kalt, eða réttara sagt það var ansi kalt í Chirombo. Hörku vindur og læti á nóttinni og morgnana. Við bara í peysum fram eftir degi á laugardag, meira að segja KI kom inn af ströndinni til að klæða sig betur, sem hefur bara aldrei gerst áður! Annars allt með kyrrum kjörum við Apaflóa. Músin sem hrelldi okkur síðast þegar við vorum þar hafði fundist dauð af ofáti á bleiku músanammi, en viti menn, það mætti önnur lítil mýsla á svæðið á föstudagskvöld. Sem húsfrúin stóð við eldhúsbekkinn mundandi mikið sax sem hún ætlaði að nota til að skera niður sítrónur kemur mýsla trítlandi upp meðfram eldavélinni. Það var við manninn mælt að frúin tók viðbragð mikið, stökk afturfyrir sig með saxið í hendi og skrækti og gólaði. Mýslu brá við öll lætin og stökk í burtu hið snarasta. Aðeins heyrðist í henni aftur rétt á eftir en hún lét ekki sjá sig eftir það.Kristrún annars í góðum gír á ströndinni auk þess að stunda sítrónutínslu í trjánum í Höfða og við hvíta húsið. Þessar fínu grænu, eitursúru sítrónur komnar af trénu hennar Ragnhildar við hvíta húsið. Fórum svo í gegnum Mangochi á leiðinni heim. Stoppuðum og skoðuðum “The Lake Malawi Museum”. Það var bara ansi gaman, ágætt safn þó lítið sé og allt auðvitað gert af töluverðum vanefnum. Þar lentum við svo í ansi spaugilegri uppákomu, en starfsmenn safnsins buðu okkur til kaups ýmsar bækur og bæklinga sem þeir voru með til sölu í glerskáp við afgreiðsluna. Þetta voru held ég 6 bæklingar sem við enduðum með að kaupa, og þá kom nú aðalmálið, nefnilega að finna út hvað við ættum að borga. Karlagreyin virtust ekki geta lagt saman nema tvær upphæðir í einu, og voru búnir að búa til 3 bunka og voru lengi lengi að reyna að finna útúr þessu, og allt kom fyrir ekki. Það endaði með því að ég fór útí bíl og náði í reiknivél fyrir þá, og ekki tók þá betra við því þeir kunnu auðvitað alls ekki á hana, ýttu alltaf á clear í staðin fyrir samasem. Að lokum tók ég málið í mínar hendur og reiknaði þetta út fyrir þá, og tók þá svo í tíma í reiknivélarkúnstum! Þetta var þó ekki allt því það var ekki hægt að fá kvittun fyrir bókunum, og þeir áttu heldur alls engan stimpil fyrir safnið! En við fórum út ánægð með bókakaupin og þeir væntanlega með að hafa getað platað þessa hvítingja til að kaupa næstum allt úr glerskápnum, en þessir bæklingar hafa væntanlega legið þar og safnað ryki frá því safnið var opnað!
Svo er það bara rútínan í Lilongwe, skóli og félagslíf hjá KI, verið að leggja áherslu á lesturinn í skólanum núna og gengur mjög vel. Höfum gefið henni frí frá því að lesa á íslensku til að rugla hana ekki í þessari hljóðaðferð sem þau eru að nota, en það eru jú allt önnur hljóð sem stafirnir gefa frá sér í enskunni. En tökum upp þráðinn um leið og hún verður orðin fluglæs, en þess verður ekki langt að bíða. Núna er svo aðalfjörið að lesa Winnie the Pooh á kvöldin og fær hún ægilega mikið útúr þeim óskupum, “Silly Old Bear” mikill uppáhaldsfrasi þessa dagana!
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home