mánudagur, ágúst 28, 2006

Mzuzu og meira

Helst í fréttum þessa dagana er að við héldum hádegisverðarboð fyrir starfsfólkið í fullorðinsfræðsluverkefninu á fimmtudaginn síðasta. Þau voru öll hér uppfrá á námskeiði og voru á leið suður til Monkey Bay þannig að þetta var upplagt tækifæri til að bjóða þeim heim. Boðið haldið úti í garði og fór í alla staði vel fram. Búið að vera mikið að gera á heimilinu við að útbúa mat og ganga frá öllu. Þau fóru svo af stað niðreftir með afganga af kjúklingum og grjónum og fleiru með sér þannig að það voru allir saddir og sælir. Sama dag byrjaði Kristrún í myndlistartímum. Hún og Alice fóru saman og voru voða ánægðar. Voru að búa til hluti úr leir sem síðan á að brenna og þær að skreyta síðar. Kennarinn heitir Christina og er frá Zimbabwe skilst okkur. Kristrúnu fannst þetta merkilegt að kennarinn héti það sama og krakkarnir í Monkey Bay kalla hana, en þar gengur hún yfirleitt undir nafninu Kristina, og finnst það bara hið besta mál!

Drifum okkur svo í ferðalag um helgina. Fórum norður til Mzuzu og gistum þar í eina nótt. Virkilega gaman og verulega falleg leið. Dálítið öðruvísi en hér sunnar, miklu fámennara, alltaf færri og færri gangandi og hjólandi og allt það eftir því sem maður kom norðar, stundum meira að segja ekki hræða á ferli. Þarna eru líka skógar, sem maður sér ekki sunnar í landinu, búið að höggva það allt niður. Gistum í góðu yfirlæti á Mzuzu Hotel, þar sem við fengum frábæra þjónustu og góðan mat. Hótelið sjálft má muna sinn fífil fegurri, er svona ekta hús frá 1970, en væri eflaust hægt að gera það virkilega flott ef vilji og efni væru til. Í Mzuzu er mun kaldara loftslag heldur en hér, við þurftum að fara í peysur um kvöldið, og það var bara nokkuð svalt þegar við lögðum af stað í gærmorgun. Keyrðum svo aðra leið til baka, yfir til Nkhata Bay og þaðan niður með ströndinni. Frábært að keyra leiðina frá Mzuzu til Nkhata Bay, allt í blóma, grænt og fínt þrátt fyrir þurrkatímabilið, og allskyns grænmeti og ávextir til sölu á leiðinni. Kíktum svo niður að höfninni í Nkhata Bay og skoðuðum markaðinn þar. M.a. var þar Afrískur læknir með varning sinn útbreiddan, allskyns tófuskott og jurtaduft og fleira. Hann var í miðjum klíðum að lækna einhverja stúlku, sitjandi í moldinni. Keyrðum svo í gegnum gúmmíplantekru á leiðinni, gaman að sjá það, öll trén með svona litlar dósir hangandi utaná sér sem gúmmíið lak ofaní. Vorum svo komin til baka bara um hálf fimm leytið í gær og allt með kyrrum kjörum í area 10

2 Comments:

At 3:07 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Sæl verið þið.
Vildi bara hrósa þér frænka góð fyrir hversu dugleg þú hefur verið að blogga. Fylgist grannt með ykkur.
kv
Svana

 
At 10:56 e.h., Blogger Sigfríður said...

Sæl sömuleiðis!
Jamm, lofaði svo mörgum á Íslandi í sumar að vera duglegri að setja inn fréttir hér (ekki að það hafi verið úr háum söðli að falla!!)þannig að maður reynir sitt besta.
Kv. S

 

Skrifa ummæli

<< Home