þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Afrískur töfralæknir, sniglaveisla .... og góðir gestir

Þá kemur loks að því að “fréttir” verða settar hér inn! Ýmislegt hefur verið í gangi síðan síðast einsog gefur að skilja. Má þar t.d. nefna það þegar Svenni komst í tæri við afrískan galdralækni nokkurn, en svo var að téður galdralæknir hafði stuttu áður reynt innbrot í húsið okkar, en var þá í gervi öryggisvarðar!! Málið var að eftir að blessaður vörðurinn reyndi að fiska töskuna mína út um gluggann og var í kjölfarið rekinn frá fyrirtækinu sem hann vann hjá þá kom hann þeim skilaboðum til starfsfólksins okkar að hann myndi leggja á þau seið (eða hvað það nú er sem galdralæknar gera) og voru þau dauðskelkuð, því hér trúir fólk því einsog nýju neti að hægt sé að leggja á fólk. Við höfðum að sjálfsögðu ekki haft um það hugmynd að blessaður maðurinn væri galdralæknir í frístundum sínum, en komumst sum sé að því þarna að hann hafði víst verið eitthvað að hræra í pottum og brugga einhverja seiði bara si svona inná lóðinni okkar á nóttunni!! Já, það gerist margt í henni Afríku, það verður nú að segjast. En húsfrúin þurfti sum sé að fara í það að hafa samband við vörslufyrirtækið og skamma þá fyrir þetta og segja þeim að vinda sér strax í það að hafa samband við manninn og gjörsamlega skipa honum að láta af þessu athæfi. Þeir komu strax á vettvang og reyndu að róa frúna niður og lofuðu öllu fögru. Þar á eftir má segja að málið hafi sofnað, eða allavega þannig að við höfum ekki heyrt meira af misgjörðum þjófóttra galdralækna og vonum að sjálfsögðu að þeir láti okkur og okkar fólk í friði í framtíðinni.

Næsta mál á dagskrá í area 10 var svo hin svokallaða sniglaveisla, en hún fólst helst í því að Svenni gekk berserksgang í garðinum með stóran úðabrúsa á bakinu að vopni! Úðabrúsinn hafði verið fylltur með blöndu af vatni og salti og þessu spreðaði hann sem vitlaus væri á blóm og tré í garðinum hjá okkur, en gróðurinn þar hafði orðið fyrir því að risastórir sniglar réðust á hann og reyndu sitt besta til að éta hann upp til agna. Fyrir snarræði heimilisföðurins var hægt að koma í veg fyrir að við stæðum uppi í garði sem væri sundurétinn – en sniglunum þykir víst saltvatnið ekkert sérstakt sælgæti!

Aðalfréttirnar eru svo að sjálfsögðu heimsókn afa og ömmu og Hóllu frænku! En þau komu alla leið frá Íslandi þann 7. febrúar og ætla að vera hér hjá okkur til 1. mars, en þá fara þau til Nairobi og ætla aðeins að stoppa þar og berja hús Karenar Blixen augum. Gengur að sjálfsögðu ekki að þýðandi Blixen komi til Afríku og fari ekki í pílagrímsferð á heimaslóðir frúarinnar.

Við höfðum ekki hugmynd um að Hólla frænka ætlaði að koma með þeim afa og ömmu og vorum ekkert smá hissa og ánægð þegar hún birtist á flugvellinum í Lilongwe! En að sjálfsögðu fór ferðin ekki alveg eftir áætlun (hvað er þetta með gestina okkar og flug?), en þau voru sum sé búin að fljúga frá London til Nairobi og frá Nairobi til Lusaka og frá Lusaka til Lilongwe þegar kom babb í bátinn og þeim var sagt að því miður gætu þau ekki lent í Lilongwe því flugumferðarstjórar væru með einhverjar aðgerðir og þeir fengju ekki lendingarleyfi. Vélin fór því aftur til Lusaka og var þeim tilkynnt á leiðinni að þau myndu reyna að fá leyfi til að fljúga aftur til Lilongwe og lenda þar en ef það gengi ekki þá yrði bara farið aftur til Nairobi. Sem betur fer var að lokum hægt að lenda í Lilongwe þannig að þau flugu aftur þangað!! Við vorum allan tímann á vellinum í Lilongwe og vissum ekkert annað en að það hefði orðið seinkun, sennilega eins gott því annars hefði maður farið að hafa áhyggjur. En mikið voru allir fegnir þegar þau voru loks komin heilu og höldnu til okkar og þessu hringsóli um afríska lofthelgi var lokið!

5 Comments:

At 5:25 f.h., Blogger Elín Eiríksdóttir said...

Mikið var gaman að heyra aftur frá ykkur! Fyndin tilhugsunin um Svenna Sniglabana :o) Kær kveðja til gestanna og ykkar allra - Elín

 
At 8:06 f.h., Blogger Þórdís Gísladóttir said...

Jiminneini hvað þetta hljómar allt skerí þarna suður í rassgati. Galdralæknar, óðir sniglar, lendingarleyfislausar flugvélar :)

 
At 9:03 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Já það er gott að hafa einhvern sem getur fengist við snígla og önnur snýkjudýr. Mér finnast nú ferðasögur núverandi gesta þinn ekki mjög spennandi frekar en "gamalla gesta" þinna. Það virðist ekki vera mjög auðvelt að ferðast til ykkar ;o/
Gott og gaman að heyra frá ykkur og fylgjast með, vona að móðir þín lifi hitann af
kv
Svana

 
At 9:49 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Sæl Sigfríður.
Kíki annað slagið inn á síðuna hjá þér. Það er gaman að lesa svona framandi fréttir, af allt öðrum vandamálum en við glímum við hér heima. Vona að þú hafir fengið nýárskveðjuna í tölvupóstinum frá mér (með þökk fyrir jólakortið). Bestu kveðjur,
Birgitta

 
At 10:08 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

That's a great story. Waiting for more. » » »

 

Skrifa ummæli

<< Home