föstudagur, september 29, 2006

Lilongwe á föstudegi ....


Þarsem við eigum örugglega ekki í náinni framtíð eftir að nenna að koma okkur upp svona sérlegatilþessgerðri myndasíðu, þá er ætlunin að vera aðeins duglegri í framtíðinni að myndskreyta þessar færslur hér. Best að byrja bara núna og setja inn eina eða tvær myndir og reyna svo að halda uppteknum hætti.

Héðan annars allt gott. KI á leið í afmæli í dag til tilvonandi tengdasonar okkar;) Hún hefur sum sé tilkynnt að hún hafi hugsað sér að koma aftur til Afríku eftir 20 ár og giftast Bradley bekkjarfélaga sínum, en hann heldur einmitt uppá 6 ára afmæli sitt í dag í Tamarind Club í British High Commission. Allir eiga að mæta með sundföt þannig að það verður efalítið mikið fjör í gangi þar. Þau vinirnir Kristrún, Alice, Celeste og Jani fóru svo í myndlist í gær og unnu þar við að mála sólblóm. Voða gaman, og ein ný úr bekknum, Jade, farin að mæta líka. Svo var það Ronaldo school á eftir í garðinum. Nóg að gera sum sé.

Svo er það bara Lilongwehelgi framundan, ætli við reynum ekki að skreppa í búðir, ekki að það sé um auðugan garð að gresja, en þyrftum að reyna að fá hvítar leikfimistuttbuxur á frauku því þær sem voru saumaðar í fyrra eru orðnar ansi þröngar um bumbuna. Það gæti orðið þrautin þyngri að finna það, og hugsanlega endar maður með að láta bara sauma aftur, en þá hættir maður á það að þær verði of stórar eða of litlar .... þó hann sé nú ágætur hanni Tana saumakarl þá á hann þetta til!

Annars er allt á fullu að undirbúa fyrir ferðina til Zimbabwe. Verið að sækja um visa, bæði til Mozambique og Zimbabwe, og svo þurfum við að fara og kaupa okkur bensínbrúsa, því maður þarf víst að bera með sér það bensín eða diesel er það nú víst, sem maður notar þar innanlands. Víst ekki á vísan að róa með eldsneyti í ríki Róberts karlsins.

1 Comments:

At 8:57 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

bið að heilsa, til hamingju með tengdasonin kveðja eg

 

Skrifa ummæli

<< Home