Sönn saga úr malavíska skrifræðinu ... og barnið hans Ronaldos
fSvenni þurfti um daginn að fara með bílinn okkar í árlega skoðun. Það er gert hjá ágætri malavískri stofnun sem kallast “Road Traffic” – þangað fer maður líka til að borga “road tax” og skrá bílinn þegar maður kaupir hann fyrst, og fá ökuskírteini og svoleiðislagað. Allavega, hann fer þarna á mánudagsmorgun og þegar kemur að því að borga þessa eittþúsund kwacha (500 krónur) sem þjónustan kostar fer hann í tilþessgert herbergi og bíður. Þar lendir í biðröð með einhverjum ágætum hvítum guðspjallamanni og fleiri góðum og gegnum borgurum. Þarna situr stúlka fyrir innan glerið, í svona týpísku malavísku skrifræðisróðaríi. Hún ætlar svo að fara að skrifa kvittun, en þá standa mál þannig að hún er akkúrat búin með síðustu kvittunina í kvittanabókinni sinni. Hún stendur því upp og hverfur eitthvert á bakvið og svona 5 mínútum seinna kemur hún til baka með nýtt kvittanahefti. Sest niður, tekur pennann og ætlar að fara að skrifa, nei, þá er penninn orðinn ónýtur þannig að hún þarf nýjan, leitar fyrst dágóða stund í töskunni sinni að nothæfum penna en finnur engann og stendur þá upp og hverfur á braut í pennaleit. Kemur aftur einhverjum mínútum síðar, nú með nýjan penna. Aftur er sest niður og nú skal sko tekið á því og kvittunin skrifuð – en það var nú of gott til að vera satt, nú kemst hún að því að kalkípappírinn (en kvittunin þarf að vera í þríriti) er ónýtur, þannig að aftur er staðið upp, og það skal tekið fram að daman var engin smásmíði og stóllinn allur hallandi og lélegur þannig að þetta var ákveðin athöfn í hvert sinn, og enn hverfur hún á braut í dágóða stund og kemur svo aftur og nú með nýjan kalkípappír. Loks var kvittunin svo fullrituð, í þríriti, en ekki er allt búið enn. Það þurfti að sjálfsögðu að setja alvöru greiðslustimpil á miðann – og daman lyftir lokinu af stimpilpúðanum og mundar stimpilinn. Stimpilpúðinn var gamall og lúinn, veruleg dæld í miðjunni þarsem voldugum stimplinum hafði greinilega ótal oft verið skellt af krafti. Nú, að sjálfsögðu var ekkert blek orðið eftir í blessuðum púðanum þannig að eitthvað varð að gera í því máli. Hún nær sér því í lítinn brúsa með stimplableki og smyr vel á púðann, lætur svo stimpilinn vaða ofaní og .... úpps, blekið útum allt og m.a. á handleggina á henni og kjólinn. Hún fer að sjálfsögðu í hreinsiaðgerðir, tekur upp eitthvert plasstykki og fer að skafa blekið af handleggjunum á sér og öðru sem fyrir árásinni hafði orðið. Þetta dundar hún við langa hríð, en sér svo að þetta er ekki nóg, stendur upp aftur og hverfur, nú í drykklanga stund. Birtist svo aftur og þá búin að gera sitt besta til að hreinsa upp versta sullið. Tekur þá púðann og skefur varlega af honum og nú beint ofaní litla ruslafötu, þannig að þar með var þetta stimpilpúðamál bara orðið vandamál annarra síðar!! Þarmeð var loks hægt að stimpla blessaða kvittunina og ... málið dautt! Aðgerð sem við normal kringumstæður hefði tekið max 2 mínútur lokið á svona sirka 45!Já, og svo hefur alveg gleymst að færa inn fréttir af því að Ronaldo, vörðurinn okkar, og skólastjóri og eini kennari Ronaldo School, er orðinn pabbi. Hann tilkynnti okkur þetta milli jóla og nýárs og við komum alveg af fjöllum, höfðum ekki haft hugmynd um að það væri barn í vændum. En mamman er sum sé fyrrverandi kærastan hans, þessi sem á pabbann og bróðurinn sem ætluðu að drepa Ronaldo karlangann þarna fyrir nokkru. Það var ægilegt drama á sínum tíma, hann þurfti að fara huldu höfði því þeir sátu víst fyrir honum í ægilegum drápshugleiðingum. En þeir hættu svo víst við það sem betur fer. Barnið er strákur sem hefur fengið nafnið Kristofer. Hann er fyrsta barn Ronaldos en á tvö hálfsystkini sammæðra. Við höfum ekki séð hann ennþá nema á mynd (sendum Ronaldo heim með myndavél þannig að Kristofer yrði nú færður í myndaannála) en ætlum að biðja Ronna að koma með hann í heimsókn einhverntíman fljótlega.
Aðrar fréttir héðan af búgarðinum í area 10 eru þær að Alex garðyrkjumaður var víst handtekinn á gamlárskvöld og stungið í steininn fyrir að vera sauðdrukkinn á almannafæri! Hann kom afskaplega miður sín til okkar með bréf þar sem hann skýrði frá atburðum. Hann þurfti svo að mæta fyrir einhvern dóm eða guð veit hvað útaf málinu, en við höldum helst að það sé allt komið í lag núna. Karlanginn búinn að vera gjörsamlega miður sín, gerir þetta væntanlega ekki aftur eftir þessa lexíu - Að öðru leyti bara allt rólegt!
2 Comments:
Ótrúlega fyndin saga! Meira svona.
Kveðja úr miklum snjó á Íslandi :) Elín
Ahahahaha ;)
Skrifa ummæli
<< Home