miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Farfuglar

Smá öppdeit héðan úr Afríkunni. Ýmislegt búið að vera í gangi síðan síðast (einsog kannski vonlegt er þegar skrifarinn er haldinn lyklaborðsleti). En kannski helst það að við skelltum okkur uppí okkar litla krúttlega jeppa á miðvikudaginn var og tættum til Zimbabwe. Keyrðum til Tete í Mozambique og gistum þar. Gekk allt svona líka ljómandi vel. Sami kallinn á landamærunum sem reddaði okkur bílatryggingu fyrir Moz og aðstoðaði við pappírana. Frúin var búin að fá visa fyrir alla familíuna til Moz í þetta skiptið, minnug rifrildisins síðast þegar vantaði fyrir heimasætuna. En sum sé, í þetta sinn gekk þetta allt þvilíkt smooth fyrir sig og við bara drifum okkur í gegn og beinustu leið til Tete. Þangað vorum við komin rétt fyrir myrkur, þurftum reyndar að stoppa rétt fyrir utan borgina ásamt með fleiri ferðalöngum því það var eitthvað FRELIMO rallý í gangi og mikið fjör, dans og trumbusláttur og enginn mátti fara framhjá á bíl, afhverju veit svosem enginn. Fórum svo í að leita okkur að gistingu. Enduðum á einhverju móteli sem er víst það skásta sem Tete hefur uppá að bjóða, en ekki væri nú verið að segja sannleikann ef því væri haldið fram að það væri mjög huggulegt. Samt loftkæling þannig að þetta var alveg ágætlega bærilegt, en Tete er alveg hryllilegt hitasvækjubæli. Byrjaði nú raunar á því að rífa niður handklæðaprikið á baðinu .... það var á síðasta snúning og bara svona tyllt í vegginn ... og svo tilkynnti fröken KI það að nú væri hún alveg til í “að taka sturtu” þannig að handklæðinu var hvort sem var sveiflað af prikinu góða.

Héldum áfram til Harare daginn eftir. Sú keyrsla gekk líka mjög vel. Ekkert vesen á Zimbabvísku landamærunum. Vorum ekki með visa í þetta skiptið en það gekk allt greiðlega, meira að segja svo mjög að immigration gæinn bauðst til að sleppa okkur við að fá visa fyrir krakkann, sem var náttla hið besta mál. Við svo bara beina leið í menninguna í Harare. Kristrún fór strax með Huld í barnaafmæli og skemmti sér mjög vel “lék tennis” og allt hvað eina, var náttúrlega mjög góð í því geimi að eigin sögn! Við gamlingjarnir frílistuðum okkur á meðan, fengum okkur kaffi, keyptum fullt af Zimbabvískum skáldsögum á markaðinum og enduðum svo með því að fara út að borða.

Hittum svo Nindi vin okkar –þvældumst um með honum á föstudeginum. Skoðuðum húsið sem þau hjón eru að byggja, og ó mæ god, smáborgarahöllin okkar sem mun rísa senn hvað líður í Kópavoginum er nú bara peanuts miðað við þau óskup. Örugglega yfir þúsund fermetrar á einhverjum 3 hæðum. Jaccuzzi, sauna, gym, öll herbergi með sér baði, gestaíbúð með öllum græjum og þar frameftir götunum. Lóðin algjört æði og þvílíkt útsýni.

Aðaldæmið var svo ferð á laugardeginum með Huld á búgarðinn hans Davids. Svona tæplega 50 mínútna akstur frá Harare í áttina að Marondera. Frábærlega gaman að koma þarna og sjá. Hann ræktar tóbak og paprikur, engir smá akrar – og svo auðvitað maís ofaní starfsfólkið. En það er eins í Zimbabwe og hér, það er ekkert matur nema maís. Skoðuðum svo hvernig tóbakið er unnið og það er nú aldeilis system. Allskyns hlöður og gufuböð og hvað veit ég. Svenni fékk alveg fiðring, vildi bara helst fara að gerast bóndi í Zimbabwe. Verst að það er náttúrlega ekkert hægt;)

Keyrðum svo í einum rykk til Malawi á sunnudaginn. Frekar svona langt, en gekk allt vel og við náðum heim fyrir átta um kvöldið. Var sum sé hægt að svæla kéllinguna úr rúminu á svona sæmilega skikkanlegum tíma í þetta skiptið.

Annars bara allt í rólegheitum. Reyndar veikindi í gangi á búgarðinum í area 10. Jonah veikur, væntanlega með malaríu, Ronaldo veikur, væntanlega með malaríu og Flora búin að vera slöpp. Þannig að það er eins gott að spreya sig vel með Peaceful Sleep og eitra innivið þannig að maður verði nú ekki bitinn – ekki nennir maður að fá þessa fúlu mýrarköldu aftur.

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Ungi slungi

Þá er loks komin heim umsögn frá skólanum um ungann – en “tæknileg vandamál” seinkuðu málinu, átti að koma í lok síðustu annar sem var í byrjun desember. En það er ekki að sökum að spyrja, dóttirin fær þvílíka glansumsögn að betra gæti það ekki verið. Foreldranir að springa úr stolti, og skilja náttúrlega ekkert í því hvernig á því standi að barnið sé svona gáfað og dásamlegt, varla hefur hún það frá þeim, hmmm.... Ekki amalegt það að fá svona heilsíðu hrós um ungannn sinn!!!

Ekki margt í öðrum fréttum. Hér bara heldur áfram að rigna, og rigna og rigna meira. Göturnar orðnar verulega götóttar eftir öll lætin, en krafturinn í regninu er ekkert venjulegur. Maísinn að sjálfsögðu nýtur góðs af og þýtur upp. Hér hjá okkur er kominn hinn mesti maísfrumskógur, en Alex garðyrkjumaður er búinn að taka allan matjurtagarðinn undir maísrækt, einsog vera ber á þessum árstíma. Garðurinn að sjálfsögðu ótrúlega fallegur og ræktarlegur í öllu regninu, og ekki skemma fyrir öll blómin sem Alex hefur verið að rækta upp fyrir okkur, þar á meðal himinhá sólblóm.

Flora okkar er svo á leið til Nkhata Bay að borga skuldir sínar, en hún hefur verið að láta brenna múrsteina í húsið sem á að byggja fyrir hana. Hún fór fyrir nokkrum mánuðum og borgaði fyrir fyrsta skammtinn af múrsteinum, en svo hefur þetta dregist hjá henni úr hömlu og mál nú komin í nokkuð óefni. En þannig er að hér er innheimtumálum nokkuð öðruvísi háttað en við eigum að venjast á norðurslóðum, sum sé þannig að ef einhver í þorpinu borgar ekki skuldir sínar þá er þorpshöfðinginn settur í málið og þarmeð skjálfa allir af hræðslu. Flora kom til okkar óðamála og frekar óskýr í tali og fór mikinn um höfðingjann og son hans. Svenni skildi þetta fyrst þannig að höfðinginn vildi fá hana sem tengdadóttur, enda Flora kvenkostur góður. En nei, þá var það þannig að hann hafði notað einhverjar þær leiðir sem honum eru færar, hljómar betur að segja að það hafi verið Afríkutromman, en sennilega var það nú bara gsm sími með celltel korti, til að láta hana vita að nú væri kominn tími til að hún skellti sér uppí minibus og kæmi undanbragðalaust til Nkthata bay og borgaði þá 20.000 kwacha sem hún skuldar múrsteinamanninum.

Jú einar fréttir í viðbót, nú er kominn í umferð 10 kwatcha mynt!!! Ógurlega fínt og flott. Fara þá sennilega að detta úr umferð allir molnuðu og ógeðslegu 5 og 10 kwatcha seðlarnir.

Almáttugur, gleymum aðalfréttunum ... en það er sum sé staðfest núna að við erum að fá langþráðan gest til okkar um miðjan næsta mánuð, eða einsog Kristrún myndi segja: "hún Hrönn guðmóðir mín er að fara að koma" jei, hvað við hlökkum til. Það fór nú raunar ekki vel með gestinn sem átti að koma síðastliðinn sunnudag, en hann Eiríkur tók uppá því að fara að spila badminton og náði að koma sér í gifs sem hann þarf að vera með vikum saman ... en hann er ekki sloppinn enn, við bíðum bara eftir að hann birtist með eða án gifs.