Farfuglar
Smá öppdeit héðan úr Afríkunni. Ýmislegt búið að vera í gangi síðan síðast (einsog kannski vonlegt er þegar skrifarinn er haldinn lyklaborðsleti). En kannski helst það að við skelltum okkur uppí okkar litla krúttlega jeppa á miðvikudaginn var og tættum til Zimbabwe. Keyrðum til Tete í Mozambique og gistum þar. Gekk allt svona líka ljómandi vel. Sami kallinn á landamærunum sem reddaði okkur bílatryggingu fyrir Moz og aðstoðaði við pappírana. Frúin var búin að fá visa fyrir alla familíuna til Moz í þetta skiptið, minnug rifrildisins síðast þegar vantaði fyrir heimasætuna. En sum sé, í þetta sinn gekk þetta allt þvilíkt smooth fyrir sig og við bara drifum okkur í gegn og beinustu leið til Tete. Þangað vorum við komin rétt fyrir myrkur, þurftum reyndar að stoppa rétt fyrir utan borgina ásamt með fleiri ferðalöngum því það var eitthvað FRELIMO rallý í gangi og mikið fjör, dans og trumbusláttur og enginn mátti fara framhjá á bíl, afhverju veit svosem enginn. Fórum svo í að leita okkur að gistingu. Enduðum á einhverju móteli sem er víst það skásta sem Tete hefur uppá að bjóða, en ekki væri nú verið að segja sannleikann ef því væri haldið fram að það væri mjög huggulegt. Samt loftkæling þannig að þetta var alveg ágætlega bærilegt, en Tete er alveg hryllilegt hitasvækjubæli. Byrjaði nú raunar á því að rífa niður handklæðaprikið á baðinu .... það var á síðasta snúning og bara svona tyllt í vegginn ... og svo tilkynnti fröken KI það að nú væri hún alveg til í “að taka sturtu” þannig að handklæðinu var hvort sem var sveiflað af prikinu góða.Héldum áfram til Harare daginn eftir. Sú keyrsla gekk líka mjög vel. Ekkert vesen á Zimbabvísku landamærunum. Vorum ekki með visa í þetta skiptið en það gekk allt greiðlega, meira að segja svo mjög að immigration gæinn bauðst til að sleppa okkur við að fá visa fyrir krakkann, sem var náttla hið besta mál. Við svo bara beina leið í menninguna í Harare. Kristrún fór strax með Huld í barnaafmæli og skemmti sér mjög vel “lék tennis” og allt hvað eina, var náttúrlega mjög góð í því geimi að eigin sögn! Við gamlingjarnir frílistuðum okkur á meðan, fengum okkur kaffi, keyptum fullt af Zimbabvískum skáldsögum á markaðinum og enduðum svo með því að fara út að borða.
Hittum svo Nindi vin okkar –þvældumst um með honum á föstudeginum. Skoðuðum húsið sem þau hjón eru að byggja, og ó mæ god, smáborgarahöllin okkar sem mun rísa senn hvað líður í Kópavoginum er nú bara peanuts miðað við þau óskup. Örugglega yfir þúsund fermetrar á einhverjum 3 hæðum. Jaccuzzi, sauna, gym, öll herbergi með sér baði, gestaíbúð með öllum græjum og þar frameftir götunum. Lóðin algjört æði og þvílíkt útsýni.
Aðaldæmið var svo ferð á laugardeginum með Huld á búgarðinn hans Davids. Svona tæplega 50 mínútna akstur frá Harare í áttina að Marondera. Frábærlega gaman að koma þarna og sjá. Hann ræktar tóbak og paprikur, engir smá akrar – og svo auðvitað maís ofaní starfsfólkið. En það er eins í Zimbabwe og hér, það er ekkert matur nema maís. Skoðuðum svo hvernig tóbakið er unnið og það er nú aldeilis system. Allskyns hlöður og gufuböð og hvað veit ég. Svenni fékk alveg fiðring, vildi bara helst fara að gerast bóndi í Zimbabwe. Verst að það er náttúrlega ekkert hægt;)
Keyrðum svo í einum rykk til Malawi á sunnudaginn. Frekar svona langt, en gekk allt vel og við náðum heim fyrir átta um kvöldið. Var sum sé hægt að svæla kéllinguna úr rúminu á svona sæmilega skikkanlegum tíma í þetta skiptið.
Annars bara allt í rólegheitum. Reyndar veikindi í gangi á búgarðinum í area 10. Jonah veikur, væntanlega með malaríu, Ronaldo veikur, væntanlega með malaríu og Flora búin að vera slöpp. Þannig að það er eins gott að spreya sig vel með Peaceful Sleep og eitra innivið þannig að maður verði nú ekki bitinn – ekki nennir maður að fá þessa fúlu mýrarköldu aftur.
3 Comments:
Já í guðanna bænum verið dugleg að spreyja ógeðinu þarna illalyktandi á ykkur, svo þið farið nú ekki að leggjast í bælið aftur! Krilla er greinilega jafn dugleg að redda sér, þegar hún man ekki alveg hvernig íslensku orðatiltækin eru, og í sumar þegar ég var að tala við hana ensku. Ef hún kunni ekki enska orðið sem hana vantaði þá bætti hún bara íslensku orði inní með þessum fína nýlenduhreim nú eða setti enska endingu á það..hehehe...alltaf góð að redda sér sú stutta! :) Og það kunni sko enginn nema hún að bera "Mrs. Mcdonald" fram á réttan hátt nema frökenin...gerði mér far um að spyrja um hana til að fá smá leiðréttingu frá gúrúnum..hehehe!
Heyrðu já er það ekki fín hugmynd - þið seljið smáborgarahallargrunninn og gerist bændur í Afríku :)
"I had a farm in Africa..."
Mjög rómantískt!
Elín
Ég er nú ekki alveg sammála Elínu að það sé fín hugmynd að gerast bóndi í Afríku, smáborgarahallargrunnurinn er nóg fyrir ykkur :o), útsýnið fallegt og lóðin fín líka. Fór og skoðaði gang mála í Fagrahvarfi og ég held að þetta verði hin fínasta höll þegar upp verður staðið.
kv
Svana
Skrifa ummæli
<< Home