Af hitabeltissjúkdómum og almennum eymingjaskap
Jæja, þá er það malarían aftur .... en nú erum við öll búin að fá malaríu og ég sum sé í annað sinn. Frekar svona lítið skemmtilegt en ekkert við því að gera annað en að dengja í sig lyfjum og hvíla sig. Erum annars búin að vera hálf lufsuleg með magakveisur og flensu og svo þetta í ofanálag. Hélt reyndar að ég væri bara með svona gamaldags flensu og hálsbólgu, en var síðan svo sérkennilega slöpp seinnipartinn að við hjúin ákváðum að það væri best að drífa sig á klíníkina og láta testa mig. Einn plús í þetta skiptið, þannig að þetta er nú skárra en síðast. Hef nú samt ekki fengið jafn dramatísk einkenni og Svenni á sínum tíma þegar það bogaði svo af honum svitinn að hann varð að skafa hann af sér með plaststykki sem hann fann í bílnum meðan hann beið eftir Kristrúnu og Alice í ballettnum. En nóg af svona fréttum, allt undir kontról þannig og þó svo þessi malavíska malaría geti verið lífshættuleg þá er hún samt gædd þeim góða kosti að hún er ekki það sem þeir kalla “recurrent” það er þú færð ekki einkennin aftur nema að þú smitist aftur, en það gerist með aðrar tegundir sem eru ekki jafn hættulegar.Annars bara rólegt. Rútínan komin í fullan gang, ballettinn byrjaði aftur í gær og þær vinkonurnar voða ánægðar með það. Fékk reyndar smá skammir í dag fyrir að hafa ekki hugsað fyrir því að láta frökenina hafa með sér nesti, hélt í sakleysi mínu að það væri nóg að vera með drykk í brúsa, en nei, maður þarf víst einhvern hressandi bita með sér líka! Kristrún heldur svo bara áfram að vera star student í Christian Class, sem kannski er ekki nema von því hún sér til þess með miklu harðræði að pabbi hennar lesi úr Barnabiblíunni (sem hér um slóðir gengur undir nafninu Jesúbókin) á hverju kvöldi, hann er miskunnarlaust barinn með Jesúbókinni ef hann möglar hið minnsta, og fékk að heyra um daginn “Svenni, skiluru þetta ekki, þú verður að lesa Jesúbókina, fullorðnir eiga að hugsa um börnin sín”. Ekkert verið að liggja á skoðunum sínum þarna. Rigningin er alltaf söm við sig, það sum sé bara rignir og rignir og rignir meira. Rigndi reyndar ekki í dag, en búið að taka smá skorpu í kvöld.
6 Comments:
Hjálpi mér allir heilagir. Mér líst ekkert á þessa mýrarköldu hjá ykkur. Verðurðu ekki öryrki af þessu?
Já og takk kærlega fyrir jólakortið fína sem kom í gær.
bestu kveðjur,
Þórdís.
Hæ Sissa,vona ad thu hristir af thér malaríuna. Gaman ad lesa bloggid ykkar. kvedja, Eyrún
Hæ Sissa - ég Hólms sem skrifa! Var að lesa blogg hjá vinum þínum um daginn þegar ég hafði ekkert að gera í vinnunni! Lestu bloggið frá 30/12'06 hjá Þórdísi vinkonu þinni, þetta neðsta þar sem stendur ps. Það er ógeðslega fyndið...hehehe..ég fékk alveg tilfelli! Eins og talað úr munni hins kaldhæðna Hólmkötts!
Láttu þér batna!
Þakka bataóskir, og upplýsist hérmeð að ég er öll að koma til, fæ bara svona örlítil mýrarkölduköst en ekkert til að tala um;) Mætt í vinnu og svona.
Já, Hólms, hún Þórdís er ótrúlega fyndin! Las aftur þetta frá 30.12, hehehe. En nú þarft þú fljótlega að fara að passa þig og þá er gott að hafa í huga þetta sem vinkona Doris Lessing sagði við hana, "Hey, Doris man, get real, he´s just an ordinary baby"!!!!
S.
Sæl verið þið.
Þakka fyrir fallega jólakveðju. Vona að þú hressist, Sigfríður, sem fyrst. Bestu kveðjur til ballerínunnar.
Birgitta
Skrifa ummæli
<< Home