fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Ungi slungi

Þá er loks komin heim umsögn frá skólanum um ungann – en “tæknileg vandamál” seinkuðu málinu, átti að koma í lok síðustu annar sem var í byrjun desember. En það er ekki að sökum að spyrja, dóttirin fær þvílíka glansumsögn að betra gæti það ekki verið. Foreldranir að springa úr stolti, og skilja náttúrlega ekkert í því hvernig á því standi að barnið sé svona gáfað og dásamlegt, varla hefur hún það frá þeim, hmmm.... Ekki amalegt það að fá svona heilsíðu hrós um ungannn sinn!!!

Ekki margt í öðrum fréttum. Hér bara heldur áfram að rigna, og rigna og rigna meira. Göturnar orðnar verulega götóttar eftir öll lætin, en krafturinn í regninu er ekkert venjulegur. Maísinn að sjálfsögðu nýtur góðs af og þýtur upp. Hér hjá okkur er kominn hinn mesti maísfrumskógur, en Alex garðyrkjumaður er búinn að taka allan matjurtagarðinn undir maísrækt, einsog vera ber á þessum árstíma. Garðurinn að sjálfsögðu ótrúlega fallegur og ræktarlegur í öllu regninu, og ekki skemma fyrir öll blómin sem Alex hefur verið að rækta upp fyrir okkur, þar á meðal himinhá sólblóm.

Flora okkar er svo á leið til Nkhata Bay að borga skuldir sínar, en hún hefur verið að láta brenna múrsteina í húsið sem á að byggja fyrir hana. Hún fór fyrir nokkrum mánuðum og borgaði fyrir fyrsta skammtinn af múrsteinum, en svo hefur þetta dregist hjá henni úr hömlu og mál nú komin í nokkuð óefni. En þannig er að hér er innheimtumálum nokkuð öðruvísi háttað en við eigum að venjast á norðurslóðum, sum sé þannig að ef einhver í þorpinu borgar ekki skuldir sínar þá er þorpshöfðinginn settur í málið og þarmeð skjálfa allir af hræðslu. Flora kom til okkar óðamála og frekar óskýr í tali og fór mikinn um höfðingjann og son hans. Svenni skildi þetta fyrst þannig að höfðinginn vildi fá hana sem tengdadóttur, enda Flora kvenkostur góður. En nei, þá var það þannig að hann hafði notað einhverjar þær leiðir sem honum eru færar, hljómar betur að segja að það hafi verið Afríkutromman, en sennilega var það nú bara gsm sími með celltel korti, til að láta hana vita að nú væri kominn tími til að hún skellti sér uppí minibus og kæmi undanbragðalaust til Nkthata bay og borgaði þá 20.000 kwacha sem hún skuldar múrsteinamanninum.

Jú einar fréttir í viðbót, nú er kominn í umferð 10 kwatcha mynt!!! Ógurlega fínt og flott. Fara þá sennilega að detta úr umferð allir molnuðu og ógeðslegu 5 og 10 kwatcha seðlarnir.

Almáttugur, gleymum aðalfréttunum ... en það er sum sé staðfest núna að við erum að fá langþráðan gest til okkar um miðjan næsta mánuð, eða einsog Kristrún myndi segja: "hún Hrönn guðmóðir mín er að fara að koma" jei, hvað við hlökkum til. Það fór nú raunar ekki vel með gestinn sem átti að koma síðastliðinn sunnudag, en hann Eiríkur tók uppá því að fara að spila badminton og náði að koma sér í gifs sem hann þarf að vera með vikum saman ... en hann er ekki sloppinn enn, við bíðum bara eftir að hann birtist með eða án gifs.

2 Comments:

At 8:05 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Vó-ó
er einhver spurning hvaðan gáfurnar koma :o)
gaman væri að sjá myndir af garðinum ykkar (smá hugmynd af næstu myndaseríu).
Gott að allt gengur vel
bið að heilsa
kveðja úr Hjallabrekku 11

 
At 2:46 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Hæ,hæ!Er alltaf á leiðinni að skrifa en hef ekki komið mér til þess enn :( Fór að heimsækja Röggu og co. í Hólminn um síðustu helgi og saknaði þá Krillu hálfu meira enda kemst náttúrúlega enginn í hálfkvisti við það litla fyrirbæri í huga frænkunnar(né annarra fjölskyldumeðlima ef út í það er farið..hehehe)Frægðar-og hetjusögur Krill-bókmenntanna rifjaðar upp reglulega við matarborðið í Hjallabrekkunni!!!Vona að þið verðið komin þegar unginn fæðist! Ástarkveðjur frá móðunni.

 

Skrifa ummæli

<< Home