fimmtudagur, október 20, 2005

Meira af Emil og Krillu

þá er það nýjasta af þeim skötuhjúum Emil og Krillu að ekki ku vera hægt lengur að lesa um ævintýri Emils í Kattholti fyrir fröken KI. Ástæðan er sum sé sú að um daginn var okkur fjölskyldunni ásamt gestum boðið til kvöldverðar hjá samstarfskonu minni sem býr í næsta nágrenni við okkur. Frökenin var afar ósátt við að þurfa að hverfa tiltölulega snemma á braut með pabba sínum, en hún varð að komast heim í háttinn enda alltaf vöknuð um kl 6 á morgnana til að komast í skólann. Þarsem þau feðgin gengu heim á leið í næstum algjöru myrkri Lilongweborgar grét hún og gólaði og tjáði sig af innlifun um það hversu hræðilega ósanngjarna foreldra hún ætti og um vonsku heimsins yfirleitt, en hún vildi ekkert frekar en að fá að vera áfram í boðinu. Þegar pabbi hennar sagði að þetta gengi nú ekki að láta svona og vera með þessa óþekkt, þá var hún fljót að svara fyrir sig: óþekktin er öll Ásu að kenna, hún er alltaf að lesa fyrir mig um skammarstrik Emils og þá læri ég svo mikla óþekkt að ég bara ræð ekki við mig, það verður að segja henni að hætta þessu! Öllum lestri um skammarstrik stráksins í Kattholti hefur því verið hætt, a.m.k. um stundarsakir.

Í öðrum krillfréttum er það helst að í gær var hinn vikulegi "kökudagur" í skólanum og í þetta sinn voru það yngstu börnin sem áttu að koma með kökur. Það var því mikil starfsemi í húsinu í area 10, en þær Ása og Minna tóku að sér kökubakstur og var árangurinn hinar glæsilegustu súkkulaðiformkökur með þessu líka fína skrauti. Allt vakti þetta mikla lukku og við fengum nákvæmar lýsingar á öllu sölu og átferlinu þegar unginn kom heim úr skólanum. En í Bishop Mackenzie tíðkast það sum sé að í frímínútum á miðvikudögum eru seldar kökur sem fjölskyldur nemenda eru fengnar í að baka og ágóðinn notaður til að styrkja við starfsemi skólans. Ekkert svona neitt of mikið hollustukjaftæði, hvað ætli forvígismenn Latabæjar myndu segja;)

Svo er sundkennslan að byrja í dag - frökenin hafði ákveðnar áhyggjur af þessu, hélt að kennarinn myndi nota sömu aðferðir og pabbi hennar! En mætti í skólann með tilgreindan útbúnað, sum sé sundbol (reyndar ekki dökkbláan einsog hann á víst að vera) , handklæði, flipflops og sundkúta. Nánari fréttir af aðgerðinni verða færðar inn síðar.

miðvikudagur, október 12, 2005

Emil í Kattholti og Krilla í Strandkoti


Hver er munurinn á þeim skötuhjúum? Ekki mikill ef marka má fröken Kristrúnu sem sagði við frænku sína um daginn eftir hinn daglega kvöldlestur um skammarstrik Emils "Ása, er það ekki skrítið að við Emil erum bæði svona litlir kútar, við erum bæði ótrúlega óþekk og við kunnum bæði á hest"!! Þessu hafa fjölskyldan og gestir skemmt sér yfir undanfarna daga! En það má til sanns vegar færa að þau eigi ýmislegt sameiginlegt blessuð, nema það að fröken KI segist ekki kunna að tálga!

Annars er það helst í fréttum að við fjölskyldan ásamt þeim Minnu og Ásu erum í Monkey Bay aftur. Búin að vera í tæpa fimm daga og eigum ca 3 eftir. Höfum haft það verulega gott, skemmt okkur á ströndinni í Chirombo, farið á Sun n´ Sand, við kerlingarnar slappað af og tekið því rólega, en feðginin eru að sjálfsögðu lítið í slíku og meira í allskyns aksjón.

KI var svo ein með þeim skvízunum í gær meðan við fórum útí þorp vegna vinnunnar og líkaði vistin vel. Hún var víst hin rólegasta með þeim í sófanum úti á verönd og tilkynnti þeim svo að þetta væri nú aldeilis rólegt og huggulegt og ekki lítill munur að vera laus við tuðið í þessum foreldrum. Hmm, er þetta ekki full snemmt í svona yfirlýsingar .... ??

Hér er mikill hiti þessa dagana, rúmlega 30 stig á kvöldin. Maður kíkir ekki einu sinni á mælinn í mesta hitanum og sólinni á daginn. Þetta er reyndar bara óskup notalegt, maður hefur allt opið, er með viftur í gangi og nýtur þess svo bara að liðast um í hálfgerðu hitamóki!! Annars kemur oft ágætur andvari á nóttinni þannig að þær eru ekkert óbærilegar, og svo er það alveg með ólíkindum yndislegt að hlusta á niðinn frá vatninu og söng fiskimannanna þegar þeir róa til fiskjar eldsnemma á morgnana.

Það sem þó skyggir á gleði manns af því að vera á þessum dásamlega stað er hungursneyðin sem í raun er orðin meira en yfirvofandi hér í þessu héraði. Akrar eru þurrir og tómir og þar að auki erfitt að fá til kaups maísinn sem fólk hér lifir á. Það sem gerir ástandið ískyggilegra er það að það er jú bara október og regntímabilið eftir. Oftast skapast þetta ástand ekki fyrr en í desember, og þá er mun styttra í að fólk geti búist við einhverri uppskeru af ökrunum að regntímabilinu loknu. En maður verður bara að vona að úr þessu rætist og reyna að hugsa sjálfur upp einhverjar leiðir til að hjálpa.

laugardagur, október 01, 2005

Af óreittum hænsnum, bátsferðum og fleiru

Jæja, ekki ætlar það nú að ganga mikið betur að setja inn fréttir með þessari tækni ... en best að reyna samt.

Það er þá helst í fréttum að við drifum okkur til Monkey Bay fyrir rúmri viku. Ása og Minna voru þar fyrir í Strandkoti og biðu komu okkar. Kristrúnu var svo sturtað úr þar og við héldum áfram niður í Monkey Bay city. Ég í vinnuna, alltaf nóg að gera þar og Svenni í ýmiskonar stúss. Á meðan ég var í mesta sakleysi í vinnunni þá stóðu þau í allskyns brölti, voru m.a. búin að panta hænur sem átti að hafa í matinn á laugardeginum, en þá átti að halda uppá afmælið hennar Ásu. Ég trúði því ekki að nokkur maður myndi nenna að standa í þessu, sérstaklega þegar hænur eru nú eitt af því fáa sem fæst tiltölulega neytendavænt í PTC. En þetta fannst þeim, sérstaklega Ásu og Svenna, einkar sniðugt. Morgunin eftir gerðist það svo að við sátum í makindum úti á verönd að borða morgunverð. Allt í einu stekkur Svenni upp og segir "þær eru komnar og þær eru lifandi" og hvað átti hann við annað en hænsnin, en sá sem hafði boðist til að selja þeim þær var sum sé mættur með lifandi hænsn í hjólbörum. Uppi varð fótur og fit og farið af stað að gera honum grein fyrir því að hann yrði að sjá um að koma þessu í þannig horf að hægt væri að elda þetta! Það gerðist svo þrátt fyrir mótmæli því tengd að þetta væri kvenmannsstarf. Ása sagði ekki koma til greina að hún stæði í svona stússi. Hún vildi bara fá hænsnið dautt og reitt!!

En skemmst er frá því að segja að þau Svenni fóru í að hreinsa fiðurfénaðinn og bita hann niður sem var þrautin þyngri því ekkert var til nema algjörlega bitlausir hnífar. En allt gekk þetta þó að lokum. En áður en hænsnin og fleira voru elduð var farið í frábæra bátsferð á Möllunni og siglt um á Malawivatni og skoðuð fiskimannaþorp á leiðinni. Við reynum að koma inn myndum við tækifæri, en það var alveg óskaplega fallegt að sigla þarna framhjá, og ekki síður gaman að fara i land í Zambo og skoða þorpið og skólann sem ÞSSÍ styrkti byggingu á. Svo var siglt inn í lita vík og tekinn smá sundsprettur. Kristrúnu var nú reyndar um og ó, hálfhrædd fyrst en var svo komin í gott stuð og úr björgunarvestinu.

Um kvöldið var svo afmælisveisla Ásu, grill og fínerí. Mér skilst reyndar að þeim hræætunum hafi fundist hænsin full seig, sem auðvitað er synd eftir allt vesenið við að koma þeim á grillið, hehehe. En hápunktur kvöldsins var svo þegar Gule wa kulu mætti á ströndina og tók léttan dans fyrir Ásuna. Kristrún skilur orðið ekkert í þessu að þessi fyrirbæri skuli einhvernvegin elta okkur á röndum - hún getur vart farið til Monkey Bay án þess að komast í tæri við þá félagana með grímurnar!

Þá er þessi færsla hér inn búin að taka svo langan tíma að það fer alveg að koma að næstu ferð niður til Monkey Bay! Ása og Minna koma vonandi hingað til höfuðborgarinnar á morgun til að fá smá hvíld á flakkinu, en þeim verður svo sópað upp í bíl aftur á föstudagseftirmiðdag og farið með þær niðreftir enn á ný. Meira af því síðar ...