mánudagur, október 30, 2006

Tannálfur

Þá gerðust stórtíðindi í hádeginu í dag, Kristrún Ingunn missti fyrstu tönnina, en þessarar stundar hefur verið beðið lengi! Blessuð tönnin, sem er í neðri góm, búin að vera laus lengi og fullorðinstönnin komin upp fyrir aftan (vonandi ekki tannréttingadæmi í uppsiglingu). Í dag var tönnsla svo orðin svo lufsuleg að frauka átti erfitt með að borða í skólanum og bað um að fá að fara með eitthvað mjúkt með sér á morgun, t.d. brauð með engri skorpu, þegar móðirin var búin að gera henni ljóst að það væri kannski ekki mjög hentugt að taka með sér ís og geyma hann í töskunni í nokkra tíma í 40 stiga hita!! Hún hefur líka haft af því miklar áhyggjur lengi að foreldrunum gæti dottið í hug að ráðast á sig, setja tvinna utanum tönnina og kippa henni úr, eftir afar ýktar frægðarsögur móðurinnar af því hvernig móðurafinn hlustaði ekki á neitt víl og vol og kippti tönnunum úr henni með spotta!!! Málið endaði svo á því að tannálfurinn sjálfur bað pabba sinn um að kippa tönninni, móðirin hvarf á braut og var varla komin inn ganginn þegar siguróp barst um húsið .... hún er farin .... og það var ekki einusinni sárt. Svo á að setja dýrgripinn undir koddann í kvöld og athuga hvort "Tooth Fairy" mæti ekki á svæðið og taki tönnina og skilji eftir pening - en það verður að vera alvöru bréfpeningur, þótti hálf púkó að mamman hefði bara fengið smápening fyrir sínar tennur þarna í gamla daga en ekki bréfpening.

Ferðasögur frá Zimbabwe eru svo á leiðinni - sem og væntanlega sögur af ferðum til Monkey Bay og Blantyre .... meira flakkið á einni familíu.

miðvikudagur, október 04, 2006

Foreldraviðtal

Þá var það foreldraviðtal hjá Miss Thompson í dag. Það var afar ánægjulegt, fengum að vita að dóttirin er að standa sig ákaflega vel, gengur vel í lestri og reikningi og er bara almennt frábært barn. Einsog við auðvitað vissum!! Allt í lagi að monta sig smá af unganum. Fengum útskýringar á öllu þessu kerfi sem hún er búin að vera að segja okkur undan og ofan af, en þeim er sum sé skipt í hópa í lestri og reikningi, og það er gert m.v. getu en til að gera það ekki augljóst að sumir séu betri en aðrir og draga ekki úr þeim sem minna geta þá eru hópanir nefndir eftir litum, og Kristrún er í Red Group, em er sum sé besti hópurinn. Svo koma Blue Group One og Blue Group og svo Yellow Group. Eftir miðannarfríið sem byrjar eftir hádegi á föstudag og er í viku verður farið að herða róðurinn aðeins í lestrinum og þau fá erfiðari bækur heim og fleiri orð að spreyta sig á. Sem er fínt þó KI hafi alltaf núna komið heim með það sem kallast “Fun Readers” en það eru aukabækur sem eru erfiðari, smá saga í þeim eða rím eða eitthvað. Ekki það að manni finnast þær nú ekkert sérstaklega skemmtilegar svosem sjálfum – fær ekkert mikið útúr því að heyra sögur á borð við “jimpkin, jumpkin we´ll all have pumpkin” En það er misjafn smekkurinn;) Töluðum líka við PE kennarann sem lét vel af unganum, sagði hana vera topp íþróttanemanda og allt það. Svo maður monti sig nú meira þá var frauka valin “Musician of the Month of Septemer” og var heldur betur hreykin með það – sagðist vera sú eina sem væri búin að fá þá útnefningu tvisvar, en hún var Musician of the Month of March á síðasta skólaári!! Var svo ánægð með þetta að hún var alveg óðamála í bílnum á leiðinni heim “Mom please can we stay here another year, stay three years then I can get this in Reception, Standard One and Standard Two”!!!

Annars bara farið að hitna allverulega enda kominn október. Orðin vel rúmlega 30 stig í hádeginu og maður stundum alveg að leka niður af hita. Kom reyndar smá rigningarskúr á sunnudaginn, sem þýðir vonandi að regnið byrji fyrr en í fyrra. Væri ekki gott fyrir Malawana ef þetta væri einsog þá, ekkert nema þurrkar og hungursneyð.

mánudagur, október 02, 2006

Myndir



Lúxus í Lilongwe

Þá er þessi mánudagur að enda kominn. Búið að vera heilmikið að gera í dag og um helgina. Svenni í því í dag að redda okkur brúsum undir allt díselið sem við þurfum að dragsnast með til Zimbabwe. Sú aðgerð gekk vonum framar þannig að þá er bara eftir að láta skipta á allskyns drasli sem þarf að skipa á í bílum fyrir langferðir – kann varla að nefna þetta allt, allskyns olíur og síur og vökvar og hvað veit ég. En þetta er nú sem betur fer ekki mín deild. Mín deild hinsvegar að sjá til þess að allskyns vegabréfsáritanir komist rétta leið í passana okkar. Þeir í Zimbabwe svo kræfir að þeir láta krakka sækja um visa, sem ekkert af hinum löndunum gerir. En sum sé, við erum orðin ægilega spennt að fara, bíðum bara eftir föstudeginum, en þá eftir hádegi ætlum við að bruna til Blantyre, gista þar og leggja svo af stað í bítið á laugardag.

Laugardagurinn var bara lúxus hér hjá okkur. Fórum í Tamarind Club með Kristrúnu í sundtíma. Fyrsta skipti sem hún fer en þónokkrir úr bekknum hennar mæta þarna í sundtíma á laugardagsmorgnum. Þetta var alveg meiriháttar þannig að nú erum við búin að ákveða að sækja um aðgang að þessum ágæta klúbb. Vill svo vel til að tilvonandi tengdamamma Kristrúnar sér um klúbbinn þannig að það verður vonandi auðsótt! Drifum okkur svo í bæinn eftir sundið, fengum okkur hádegismat á Mamma Mia og svo var farið í Indian Town að versla. Það er nú alltaf upplifun að fara þangað – þvílík kaos. Byrjuðum á timburmarkaðnum, en við ætlum að láta smíða fyrir okkur hillur í borðstofuna þannig að við kíktum á hvað þar væri í boði af huggulegum harðvið sem mætti nota. Ýmislegt til sem við förum í að kaupa þegar frá Zimbabwe verður komið. Ég endaði svo með að kaupa nýtt veski, kominn tími til að leggja þessu gamla – það var týpísk malavísk verslunarupplifun. Við spurðum um verðið, því það er náttúrlega ekkert verðmerkt. Þeir segja 3500, og ég góla uppyfirmig, þrjúþúsundogfimmhundruð, ah, madam segja þeir þá, what can you pay, make us an offer .... og ég segi: en á þessu veski hér stendur 1700, og þið ætlist til að ég borgi 3500 – but madam that is dubai money. Við enduðum með að kaupa þetta á 2500, sem sjálfsagt var alltof mikið – veit reyndar ekki hvert gengið er á dubai-ískri mynt en svona er þetta bara hér! Unganum tókst svo að svæla tvo ísa útúr pabba sínum í Shoprite meðan ég vafraði um búðina í leit að æti. Hún fór nokkuð faglega að þessu, spurði pabba sinn hvort hann vildi ekki ís líka, jú jú hannn vildi það, svo sannfærði hún hann um að hann ætti að bíða með sinn ís þartil hún væri búin með sinn, og þegar hún hafði hesthúsað sínum sagðist hún endilega þurfa að athuga hvort hans væri ekki vanilluís líka – og svo sást ekki meira af ísnum þeim. Þau komu svo blaðskellandi inn og höfðu miklar skoðanir á því sem ég var búin að setja í körfuna og hverju ætti að bæta í hana.

Sunnudegi eytt heima í garði – Flora farin til Nkhata Bay að kaupa múrsteina þannig að húsfrúin stóð sjálf í þvotti og snúruferðum. Bara alveg ágætt að stússa í því. Kristrún, Serbina og Jonah í því að stússa í garðinum og hreinsa uppúr vatnsrennunum. Óskup dugleg greyin.