föstudagur, september 29, 2006

Lilongwe á föstudegi ....


Þarsem við eigum örugglega ekki í náinni framtíð eftir að nenna að koma okkur upp svona sérlegatilþessgerðri myndasíðu, þá er ætlunin að vera aðeins duglegri í framtíðinni að myndskreyta þessar færslur hér. Best að byrja bara núna og setja inn eina eða tvær myndir og reyna svo að halda uppteknum hætti.

Héðan annars allt gott. KI á leið í afmæli í dag til tilvonandi tengdasonar okkar;) Hún hefur sum sé tilkynnt að hún hafi hugsað sér að koma aftur til Afríku eftir 20 ár og giftast Bradley bekkjarfélaga sínum, en hann heldur einmitt uppá 6 ára afmæli sitt í dag í Tamarind Club í British High Commission. Allir eiga að mæta með sundföt þannig að það verður efalítið mikið fjör í gangi þar. Þau vinirnir Kristrún, Alice, Celeste og Jani fóru svo í myndlist í gær og unnu þar við að mála sólblóm. Voða gaman, og ein ný úr bekknum, Jade, farin að mæta líka. Svo var það Ronaldo school á eftir í garðinum. Nóg að gera sum sé.

Svo er það bara Lilongwehelgi framundan, ætli við reynum ekki að skreppa í búðir, ekki að það sé um auðugan garð að gresja, en þyrftum að reyna að fá hvítar leikfimistuttbuxur á frauku því þær sem voru saumaðar í fyrra eru orðnar ansi þröngar um bumbuna. Það gæti orðið þrautin þyngri að finna það, og hugsanlega endar maður með að láta bara sauma aftur, en þá hættir maður á það að þær verði of stórar eða of litlar .... þó hann sé nú ágætur hanni Tana saumakarl þá á hann þetta til!

Annars er allt á fullu að undirbúa fyrir ferðina til Zimbabwe. Verið að sækja um visa, bæði til Mozambique og Zimbabwe, og svo þurfum við að fara og kaupa okkur bensínbrúsa, því maður þarf víst að bera með sér það bensín eða diesel er það nú víst, sem maður notar þar innanlands. Víst ekki á vísan að róa með eldsneyti í ríki Róberts karlsins.

mánudagur, september 25, 2006

Meira af dýralífi ....

Þá eru það frekari fréttir af dýralífi í Strandkoti ... en þar dvöldum við frá föstudegi fram á sunnudag. Á föstudagskvöld flatmöguðum við fjölskyldan í sófanum og höfðum það gott þegar eitthvað einkennilegt þrusk heyrðist allt í einu. Og það kom ekki af gólfinu í þetta sinn ... nei nú var það lítill og krúttlegur íkorni sem prílaði um í þaksperrunum, ferðaðist fram og til baka alveg rétt uppvið stráþakið. Þetta var nú svosem bara allt í lagi að hafa greyið þarna, þó okkur brygði við svona fyrst. En fram að þessu hafa íkornanir látið sér nægja að halda hlaupkeppnir sínar í rýminu á milli loftsins í svefnherberginu og þaksins. En í þetta skiptið var þetta eintak komið inn í stofu þar sem ekkert falskt loft er! Ekki spurðist svo meira til íkornans yfir helgina, sennilega hefur honum leiðst þarna greyinu og farið að hitta vini sína sem hafa haldið sig einhversstaðar annarsstaðar. En á sunnudagsmorgni þegar húsmóðirin trítlaði fram og ætlaði að fara að hita kaffi, brá henni heldur í brún þegar hún gekk framá smádýr nokkuð, sem henni þótti þó full stórt ... en þar var kominn stærðarinnar froskur. Kallað var á hina fjölskyldumeðlimina sem fannst þetta hinn mesti fengur, fóru saman í það að ná frosknum og setja hann undir glerhjálm og uppá borð þarsem miklar athuganir fóru fram sem enduðu með því að Kristrún teiknaði þessa fínu mynd af fyrirbærinu. Honum var svo sleppt út á gras og spurðist ekki til hans meir.
Annars stundaði KI þónokkrar veiðar í þetta skiptið. Dreif sig allnokkrum sinnum í það að aðstoða fólk sem var við veiðar alveg í flæðarmálinu. Þótti það nauðsynlegt að fara aðeins í það að vinna í þeim málum. Eitthvert skiptið kom hún svomeð einn pínulítinn fisk í laun!! Svo var heilmikil húsbygging stunduð. Hún og hópur af strákum fóru í það að safna sér grjóti og múrsteinum og voru búin að byggja sæmilegasta kofa, með greinar sem þak, afmarkaða verönd og smá eldstæði til að geta nú kokkað sitt nsima.

mánudagur, september 18, 2006

Kristrún kúasmali

Þá erum við komin heim úr enn einni ferðinni suður til Apaflóa. Þar var allt í góðum gír einsog við var að búast. Farið að hlýna ansi mikið, þó ekki orðið óþægilega heitt ennþá. Tíminn á laugardeginum aðeins nýttur í sólböð, þó allavega húsfrúnni þyki það ekki skemmtileg iðja. En ekki dugar að vera snjóhvítur í öllum hitanum – fröken Kristrúnu þykir það slæmt að móðir hennar sé of hvít og leggur hart að henni að brúnka sig nú smá. En það var mikil aksjón í gangi hjá frökeninni allan tímann. Var úti á strönd gjörsamlega allan daginn bæði föstu- og laugardag, enda var það þreyttur ungur einstaklingur sem lagðist til svefns bæði kvöldin. Ströndin, og Chiromboþorp einsog það leggur sig, eru endalaus uppspretta alskyns leikja og starfsemi. Verið að byggja sandkastala, þykjast elda nsima í flæðarmálinu, fara í vatnið að busla, fá sér far á eintrjáningi og fara þar að stýra aðgerðum, klifra í trjám, tína sítrónur, skreppa út í Cape að spjalla við garðyrkjumanninn, halda hoppukeppni af stallinum á lóðinni yfir á ströndina, reka kusur út ströndina og ..... Nýjasta aktívitetið var sum sé að Kristrún gerðist kúasmali – seinnipartinn á laugardag fór ógurlegur flokkur af kusum röltandi út ströndina og nokkrir litlir kúasmalar fylgdu þeim eftir. KI leist nú ekki á blikuna til að byrja með en var fljótlega komin í málið, farin að leggja kúasmölunum lið og skondraði með þeim heillanga leið eftir ströndinni. Kom sátt og sæl til baka, grútskítug og öll í sóti, en það hafði henni tekist að næla sér í einhversstaðar á leiðinni!

Svo er það bara rútínan hér í Lilongwe út vikuna – gerum jafnvel ráð fyrir að skreppa aftur suðureftir um næstu helgi. Og svo erum við farin að undirbúa ferð til Zimbabwe, en þangað ætlum við í október í miðannarfríinu í skólanum.

miðvikudagur, september 13, 2006

Lilongwelíf

Þá eru það smá uppdateringar héðan úr hinu hlýja hjarta …. Allt verið með kyrrum kjörum síðan síðast. Bara rólegheit í gangi, vorum heima alla síðustu helgi, skruppum í skólann hennar Kristrúnar á laugardaginn að skoða árlega sýningu hjá Lilongwe Agricultural Society. Það var fínt, voða flottar blómaskreytingar gerðar útfrá allskyns þemum, og svo grænmeti og ávextir. Maður hafði nú ekki alveg vit á þessu með grænmetið og ávextina, þ.e. hverjir ættu skilið að vinna og hverjir ekki, en mér varð nú að orði að allavega gulræturnar hans Alex væru flottari en þær sem þarna voru til sýnis! Við ættum kannski bara að skrá karlinn í félagið. Fórum svo í gönguferð á laugardaginn, bara hring í hverfinu okkar, niður að “damminum” sem er rétt hjá okkur og þar uppum allt, og hittum þá fullt af mönnum sem voru að setja mold á eldgamlan vörubíl. Svenni tók sig til og fékk þá til að koma með eitt bílhlass í garðinn til okkar, og svo strax á eftir að fara og sækja tóbaksmulning sem verður dreift á grasið. Þetta gekk allt eftir, þeim hlýtur að hafa fundist borgunin nóg því þeir komu brunandi með þetta löngu á undan áætlun. Þannig að nú er búið að dreifa mold í beð og slíkt þar sem þess þurfti, og þar að auki búið að fara fram smá skógarhögg, og lítur garðurinn mun betur út á eftir.

Svo er félagslífið hjá Kristrúnu allt að komast í full swing. Ballettinn hjá Mrs. Leslie að byrja í næstu viku, myndlistartímarnir á fimmtudögum, Christian Class byrjaði í gær – með miklu fjöri og skemmtilegheitum. Og svo kemur frökenin úr þessum tímum full af speki einsog “Mom, did you know that God is invisible, but he leaves his footprints everywhere, he is like the wind, you can´t see him but you can feel him.” Jamm, aldeilis speki. Heimaverkefnin í skólanum alltaf að aukast. Lestur á hverjum degi og ægilegar æfingar með að klippa út orð og búa til sínar eigin setniningar. Svo eru það prójektin, sem feðginin fara í saman, móðirin alltof föndurfælin til að standa í slíku, en eina vikuna var það að byggja hús, og núna síðast að búa til hljóðfæri.

þriðjudagur, september 05, 2006

Kuldi og trekkur við Apaflóa

Vorum í Monkey Bay frá fimmtudegi til sunnudags. Þar var ótrúlega kalt, eða réttara sagt það var ansi kalt í Chirombo. Hörku vindur og læti á nóttinni og morgnana. Við bara í peysum fram eftir degi á laugardag, meira að segja KI kom inn af ströndinni til að klæða sig betur, sem hefur bara aldrei gerst áður! Annars allt með kyrrum kjörum við Apaflóa. Músin sem hrelldi okkur síðast þegar við vorum þar hafði fundist dauð af ofáti á bleiku músanammi, en viti menn, það mætti önnur lítil mýsla á svæðið á föstudagskvöld. Sem húsfrúin stóð við eldhúsbekkinn mundandi mikið sax sem hún ætlaði að nota til að skera niður sítrónur kemur mýsla trítlandi upp meðfram eldavélinni. Það var við manninn mælt að frúin tók viðbragð mikið, stökk afturfyrir sig með saxið í hendi og skrækti og gólaði. Mýslu brá við öll lætin og stökk í burtu hið snarasta. Aðeins heyrðist í henni aftur rétt á eftir en hún lét ekki sjá sig eftir það.

Kristrún annars í góðum gír á ströndinni auk þess að stunda sítrónutínslu í trjánum í Höfða og við hvíta húsið. Þessar fínu grænu, eitursúru sítrónur komnar af trénu hennar Ragnhildar við hvíta húsið. Fórum svo í gegnum Mangochi á leiðinni heim. Stoppuðum og skoðuðum “The Lake Malawi Museum”. Það var bara ansi gaman, ágætt safn þó lítið sé og allt auðvitað gert af töluverðum vanefnum. Þar lentum við svo í ansi spaugilegri uppákomu, en starfsmenn safnsins buðu okkur til kaups ýmsar bækur og bæklinga sem þeir voru með til sölu í glerskáp við afgreiðsluna. Þetta voru held ég 6 bæklingar sem við enduðum með að kaupa, og þá kom nú aðalmálið, nefnilega að finna út hvað við ættum að borga. Karlagreyin virtust ekki geta lagt saman nema tvær upphæðir í einu, og voru búnir að búa til 3 bunka og voru lengi lengi að reyna að finna útúr þessu, og allt kom fyrir ekki. Það endaði með því að ég fór útí bíl og náði í reiknivél fyrir þá, og ekki tók þá betra við því þeir kunnu auðvitað alls ekki á hana, ýttu alltaf á clear í staðin fyrir samasem. Að lokum tók ég málið í mínar hendur og reiknaði þetta út fyrir þá, og tók þá svo í tíma í reiknivélarkúnstum! Þetta var þó ekki allt því það var ekki hægt að fá kvittun fyrir bókunum, og þeir áttu heldur alls engan stimpil fyrir safnið! En við fórum út ánægð með bókakaupin og þeir væntanlega með að hafa getað platað þessa hvítingja til að kaupa næstum allt úr glerskápnum, en þessir bæklingar hafa væntanlega legið þar og safnað ryki frá því safnið var opnað!

Svo er það bara rútínan í Lilongwe, skóli og félagslíf hjá KI, verið að leggja áherslu á lesturinn í skólanum núna og gengur mjög vel. Höfum gefið henni frí frá því að lesa á íslensku til að rugla hana ekki í þessari hljóðaðferð sem þau eru að nota, en það eru jú allt önnur hljóð sem stafirnir gefa frá sér í enskunni. En tökum upp þráðinn um leið og hún verður orðin fluglæs, en þess verður ekki langt að bíða. Núna er svo aðalfjörið að lesa Winnie the Pooh á kvöldin og fær hún ægilega mikið útúr þeim óskupum, “Silly Old Bear” mikill uppáhaldsfrasi þessa dagana!