miðvikudagur, janúar 24, 2007

Af hitabeltissjúkdómum og almennum eymingjaskap

Jæja, þá er það malarían aftur .... en nú erum við öll búin að fá malaríu og ég sum sé í annað sinn. Frekar svona lítið skemmtilegt en ekkert við því að gera annað en að dengja í sig lyfjum og hvíla sig. Erum annars búin að vera hálf lufsuleg með magakveisur og flensu og svo þetta í ofanálag. Hélt reyndar að ég væri bara með svona gamaldags flensu og hálsbólgu, en var síðan svo sérkennilega slöpp seinnipartinn að við hjúin ákváðum að það væri best að drífa sig á klíníkina og láta testa mig. Einn plús í þetta skiptið, þannig að þetta er nú skárra en síðast. Hef nú samt ekki fengið jafn dramatísk einkenni og Svenni á sínum tíma þegar það bogaði svo af honum svitinn að hann varð að skafa hann af sér með plaststykki sem hann fann í bílnum meðan hann beið eftir Kristrúnu og Alice í ballettnum. En nóg af svona fréttum, allt undir kontról þannig og þó svo þessi malavíska malaría geti verið lífshættuleg þá er hún samt gædd þeim góða kosti að hún er ekki það sem þeir kalla “recurrent” það er þú færð ekki einkennin aftur nema að þú smitist aftur, en það gerist með aðrar tegundir sem eru ekki jafn hættulegar.

Annars bara rólegt. Rútínan komin í fullan gang, ballettinn byrjaði aftur í gær og þær vinkonurnar voða ánægðar með það. Fékk reyndar smá skammir í dag fyrir að hafa ekki hugsað fyrir því að láta frökenina hafa með sér nesti, hélt í sakleysi mínu að það væri nóg að vera með drykk í brúsa, en nei, maður þarf víst einhvern hressandi bita með sér líka! Kristrún heldur svo bara áfram að vera star student í Christian Class, sem kannski er ekki nema von því hún sér til þess með miklu harðræði að pabbi hennar lesi úr Barnabiblíunni (sem hér um slóðir gengur undir nafninu Jesúbókin) á hverju kvöldi, hann er miskunnarlaust barinn með Jesúbókinni ef hann möglar hið minnsta, og fékk að heyra um daginn “Svenni, skiluru þetta ekki, þú verður að lesa Jesúbókina, fullorðnir eiga að hugsa um börnin sín”. Ekkert verið að liggja á skoðunum sínum þarna. Rigningin er alltaf söm við sig, það sum sé bara rignir og rignir og rignir meira. Rigndi reyndar ekki í dag, en búið að taka smá skorpu í kvöld.

föstudagur, janúar 19, 2007

Myndir

Setjum loks inn nokkrar myndir, hefur verið erfiðleikum bundið undanfarið að flytja myndirnar úr heimilistölvunni og í kerfið hér en vonandi gengur það að lokum þannig að við getum dengt inn nokkrum jóla- og áramótamyndum.
Kristrún í Chirombo

Gíraffi á ferð í Hwange


Fílahjörð í Hwange

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Chilembwe Day

Lífið gengur sinn vanagang hér í Lilongwe þessa dagana. Var löng helgi núna síðast, Chilembwe Day á mánudaginn, en Chilembwe þessi er einhverskonar frelsishetja þeirra Malavanna. Prýðir m.a. alla peningaseðla. Er svona fremur fornlegur að sjá enda sagði Kristrún þegar hún sá íslenskan peningaseðil með mynd af Jóni Sigurðssyni sl sumar: “Er John Chilembwe líka á Íslandi?”

Ýmislegt baukað og baksað um helgina. Tekin smá rispa í verslunum, farið í Fashion Emporium Lilongweborgar, já já, hér er nú ýmislegt til ... en þetta er svona sú búð sem selur mest af fötum af búðunum í Indian Town og er ekki með neitt of mikið af öðru með, bara dálítið af hljómflutningstækjum aftast í búðinni og nokkur pottasett meðfram einum veggnum. En þarna var fjárfest í þessu fína dressi á frúna, höttum og ógurlegum loðjakka sem hægt verður að nota þegar farið verður á kaldari slóðir, já að ógleymdum þessum líka fínu glitskóm. Svenni liggur undir grun um að hafa farið þarna áður í njósnaferðir því hann var ískyggilega fljótur að tína til það sem virkaði! Kíktum svo aðeins í Pep stores sem eru svona einhver Suður Afrísk keðja, sá þessar búðir reyndar hvergi í Suður Afríku en þær eru sjálfsagt á svona afskekktari sveitastöðum;) En þar var hægt að fjárfesta í strandkjól handa Kristrúnu, ekki hægt að kvarta undan verðinu, kostaði 299 kwacha eða svona sirka 150 krónur. Á meðan á öllu þessu stóð kom þvílík hellidemba að það var einsog himnarnir væru að bresta .... þannig að við ákváðum að gera lokatilraun til að finna regnkápu á dótturina, en slíkt er nú ekki auðfundið hér í borg. EN það gekk loks, í þessari líka fínu barnafatabúð sem reyndist leynast þarna í einni af koppagötum Indian Town, segið svo að Lilongwe sé ekki full of surprises. Regnkápan er nú raunar frekar furðuleg flík, stutt og með hettu, ermarnar ógnarlangar en teknar saman með teygju þannig að það er svosem ekki til skaða, og úr einhverskonar bleiku gúmmíplasti, svolítið svona einsog plastpoki! Dugar samt í það sem þarf, þ.e. að unginn komist í og úr skóla og geti leikið sér í frímínútum þegar rigningarnar eru sem mestar.

Fórum svo út að borða með vinafólki á laugardagskvöldið, á nýjan stað sem er hér rétt hjá. Þar situr maður úti en undir stráþaki. Var bara alveg ágætt, nema hvað að við gleymdum moskítóspreyinu og það var ekki að sökum að spyrja, ég var gjörsamlega étin upp til agna af andsk flugunum.

Kristrún fór svo í afmæli til Alice vinkonu á mánudeginum. Það var svona stelpupartý, nema það var víst ekki hægt að losna við Sam litlabróður. Voða gaman hjá þeim, fóru í Crossroads í crazy golf og svo heim þarsem veitingarnar voru bornar fram í nýja tréhúsinu hennar Alice sem vægt til orða tekið er svakalegt flykki, væri hægt að hafa litla fjölskyldu þar full time!! Þetta var allt ógurlega gaman og verst bara að þurfa að láta sækja sig, sumum finnst foreldrarnir alltaf koma of snemma!!

miðvikudagur, janúar 10, 2007

Sönn saga úr malavíska skrifræðinu ... og barnið hans Ronaldos

fSvenni þurfti um daginn að fara með bílinn okkar í árlega skoðun. Það er gert hjá ágætri malavískri stofnun sem kallast “Road Traffic” – þangað fer maður líka til að borga “road tax” og skrá bílinn þegar maður kaupir hann fyrst, og fá ökuskírteini og svoleiðislagað. Allavega, hann fer þarna á mánudagsmorgun og þegar kemur að því að borga þessa eittþúsund kwacha (500 krónur) sem þjónustan kostar fer hann í tilþessgert herbergi og bíður. Þar lendir í biðröð með einhverjum ágætum hvítum guðspjallamanni og fleiri góðum og gegnum borgurum. Þarna situr stúlka fyrir innan glerið, í svona týpísku malavísku skrifræðisróðaríi. Hún ætlar svo að fara að skrifa kvittun, en þá standa mál þannig að hún er akkúrat búin með síðustu kvittunina í kvittanabókinni sinni. Hún stendur því upp og hverfur eitthvert á bakvið og svona 5 mínútum seinna kemur hún til baka með nýtt kvittanahefti. Sest niður, tekur pennann og ætlar að fara að skrifa, nei, þá er penninn orðinn ónýtur þannig að hún þarf nýjan, leitar fyrst dágóða stund í töskunni sinni að nothæfum penna en finnur engann og stendur þá upp og hverfur á braut í pennaleit. Kemur aftur einhverjum mínútum síðar, nú með nýjan penna. Aftur er sest niður og nú skal sko tekið á því og kvittunin skrifuð – en það var nú of gott til að vera satt, nú kemst hún að því að kalkípappírinn (en kvittunin þarf að vera í þríriti) er ónýtur, þannig að aftur er staðið upp, og það skal tekið fram að daman var engin smásmíði og stóllinn allur hallandi og lélegur þannig að þetta var ákveðin athöfn í hvert sinn, og enn hverfur hún á braut í dágóða stund og kemur svo aftur og nú með nýjan kalkípappír. Loks var kvittunin svo fullrituð, í þríriti, en ekki er allt búið enn. Það þurfti að sjálfsögðu að setja alvöru greiðslustimpil á miðann – og daman lyftir lokinu af stimpilpúðanum og mundar stimpilinn. Stimpilpúðinn var gamall og lúinn, veruleg dæld í miðjunni þarsem voldugum stimplinum hafði greinilega ótal oft verið skellt af krafti. Nú, að sjálfsögðu var ekkert blek orðið eftir í blessuðum púðanum þannig að eitthvað varð að gera í því máli. Hún nær sér því í lítinn brúsa með stimplableki og smyr vel á púðann, lætur svo stimpilinn vaða ofaní og .... úpps, blekið útum allt og m.a. á handleggina á henni og kjólinn. Hún fer að sjálfsögðu í hreinsiaðgerðir, tekur upp eitthvert plasstykki og fer að skafa blekið af handleggjunum á sér og öðru sem fyrir árásinni hafði orðið. Þetta dundar hún við langa hríð, en sér svo að þetta er ekki nóg, stendur upp aftur og hverfur, nú í drykklanga stund. Birtist svo aftur og þá búin að gera sitt besta til að hreinsa upp versta sullið. Tekur þá púðann og skefur varlega af honum og nú beint ofaní litla ruslafötu, þannig að þar með var þetta stimpilpúðamál bara orðið vandamál annarra síðar!! Þarmeð var loks hægt að stimpla blessaða kvittunina og ... málið dautt! Aðgerð sem við normal kringumstæður hefði tekið max 2 mínútur lokið á svona sirka 45!

Já, og svo hefur alveg gleymst að færa inn fréttir af því að Ronaldo, vörðurinn okkar, og skólastjóri og eini kennari Ronaldo School, er orðinn pabbi. Hann tilkynnti okkur þetta milli jóla og nýárs og við komum alveg af fjöllum, höfðum ekki haft hugmynd um að það væri barn í vændum. En mamman er sum sé fyrrverandi kærastan hans, þessi sem á pabbann og bróðurinn sem ætluðu að drepa Ronaldo karlangann þarna fyrir nokkru. Það var ægilegt drama á sínum tíma, hann þurfti að fara huldu höfði því þeir sátu víst fyrir honum í ægilegum drápshugleiðingum. En þeir hættu svo víst við það sem betur fer. Barnið er strákur sem hefur fengið nafnið Kristofer. Hann er fyrsta barn Ronaldos en á tvö hálfsystkini sammæðra. Við höfum ekki séð hann ennþá nema á mynd (sendum Ronaldo heim með myndavél þannig að Kristofer yrði nú færður í myndaannála) en ætlum að biðja Ronna að koma með hann í heimsókn einhverntíman fljótlega.

Aðrar fréttir héðan af búgarðinum í area 10 eru þær að Alex garðyrkjumaður var víst handtekinn á gamlárskvöld og stungið í steininn fyrir að vera sauðdrukkinn á almannafæri! Hann kom afskaplega miður sín til okkar með bréf þar sem hann skýrði frá atburðum. Hann þurfti svo að mæta fyrir einhvern dóm eða guð veit hvað útaf málinu, en við höldum helst að það sé allt komið í lag núna. Karlanginn búinn að vera gjörsamlega miður sín, gerir þetta væntanlega ekki aftur eftir þessa lexíu - Að öðru leyti bara allt rólegt!

mánudagur, janúar 08, 2007

Hippo Alert!

Þá fer rútínan að komast í samt lag, skólinn að byrja á morgun og þarmeð það að þurfa að rífa sig upp klukkan 6 á morgnana. Fer nú misvel í fólk! Annars er bara gott í okkur hljóðið á nýju ári hér í Malawi. Hér bara rignir og rignir, já og rignir meira. En það er bara allt í góðu og við hugsum bara að þetta sé nú alsendis ljómandi ágætt fyrir vini okkar Malavana og maísinn þeirra og allt það.

Annars gerðist nokkuð óvænt í gær, sunnudag. Við vorum þá ennþá í Chirombo, og fengum upphringingu frá okkar góðu nágrönnum þar um að það hefðu heyrst undarleg hljóð og í kjölfarið sést flóðhestur í vatninu bara rétt hjá okkur. Við þustum út á verönd að athuga þetta mál, og jú, þarna svamlaði einmana flóðhestur bara rétt við eyjuna litlu sem er bara svona í seilingarfjarlægð frá okkur, eða þannig. Okkur þótti þetta merkilegt mjög, því allan þann tíma sem við höfum verið hér hefur ekki sést til flóðhesta þarna hjá okkur, né krókódíla, en sögurnar segja að krókó-arnir séu stundum hinumegin, eða bakvið Höfða. Vonandi samt að þetta fari ekki að verða að venju, manni finnst nú svona minna spennandi að svamla þarna í vatninu með hippo 10 metra frá sér!

Svo má segja að það hafi verið svona nokkurskonar aukajól og -afmæli í dag, en loksins barst póstur frá Íslandi, jólakort og allskyns pakkar. Kristrún kunni sér ekki læti, og sagði margsinnis “það er alveg brjálað þetta fólk” og átti við gefendurnar!!! Þökkum ykkur öllum kærlega fyrir, jólakort, myndir, gjafir og fínerí.

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Rafmagnsraunir, afmæli og áramót

Jæja, jólin liðu sum sé í vellystingum praktuglega í Zomba. Aðfangadagskvöld fínt og rólegt, góður matur og allt það. Á jóladag var svo mikið fjör, þá var boðið upp á hádegisverð og það svoleiðis fylltist allt af fólki að þeir réðu varla við neitt og voru farnir að ferja inn borð og skrifstofustóla til að fólk fengi sæti. Allt gekk þetta þó ágætlega, fullt af krökkum og Kristrún komin í kompaní með stelpum að hlaupa þarna um garðinn, þær voru að lokum komnar í einhvern löggu og bófaleik, voða skvízur.

Keyrðum svo heim á annan í jólum. Þar var allt með kyrrum kjörum, en ekki lengi ...
Við vorum ekki búin að vera heima nema kannski klukkutíma þegar þessi líka svakalega rigning skellur á með tilheyrandi þrumum og eldingum. Allt í einu kemur svo ógurlegur skellur og allt rafmagn fer af. Við sáum fyrir okkur að þetta ástand gæti nú tekið einhvern tíma, og hringdum í ESCOM til að fá einhverjar upplýsingar. Þar sögðu þeir okkur að eldingu hefði lostið niður í rafmagnslínu þarna í okkar hverfi og það yrði farið í að gera við. Þetta var auðvitað svosem ekkert spes skemmtilegt, enda við með rafmagnseldavél og því ekki fyrirsjáanleg mikil eldamennska, jú og hitinn náttúrlega hrikalegur og engar loftkælingar, svo ekki sé minnst á ísskápinn og hans innihald!! En til að gera langa sögu stutta þá varði þetta rafmagnsleysi í vel ríflega sólarhring, áður en yfir lauk var farið að flæða útúr ísskápnum, við orðin svöng og kaffiþyrst að ekki sé talað um sveitt og pirruð!!! Ýmsar leiðir voru reyndar til að redda málum með ísskápinn, við þvældumst út um allan bæ að leita að ísmolum til að bjarga áramótakjötinu sem feðginin höfðu keypt sér í Jóhannesarborg. En þá þurfti náttla akkúrat að vera transport problem hjá ísmoladíler Lilongweborgar þannig að ekki gekk það;) Við vorum óskup fegin þegar rafmagnið kom loks á, fórum í að redda því sem reddað varð úr ísskápnum (og sem betur fer var kjötið OK) og koma hlutum í skorður aftur. Erum svo búin að fá leyfi til að kaupa rafstöð þannig að þetta ætti ekki að verða vandamál í framtíðinni.

Þeyttumst svo niður til Monkey Bay. Þar var haldið uppá afmæli Kristrúnar þann þrítugasta. Það var með sama sniði og í fyrra, pylsupartí á ströndinni. Eitthvað um 60 krakkar mættir til að raða í sig pylsum og svo kexi í eftirmat. Fór allt ágætlega fram, vorum með fullt af fólki til að vinna í þessu með okkur og stýra liðinu. Svo varð allt brjálað undir lokin þegar þau fengu öll blöðrur og þvílík læti og fjör á ströndinni að maður vissi varla hvað maður átti af sér að gera! Afmælisbarnið skemmti sér ágætlega, var mikið í því að stýra þarna aðgerðum og sjá til þess að allir væru nú með nóg að bíta og brenna – en stakk svo reglulega af með einhverjum vinum sínum og klifraði upp í tré og gerði allskyns kúnstir.

Við hjúin stóðum svo sveitt yfir pottunum á gamlársdag, elduðum hamborgarhrygginn sem keyptur var í Suður Afríku, og allskyns dótarí með. Frekar mikið fjör að standa í þessu þarna í strandkofanum, en allt gekk þetta svosem áfallalaust og maturinn var góður, eða allavega það sem ég át af honum, lét hamborgarhrygginn eiga sig. Vorum svo mest í letimalli á nýársdag, nema KI auðvitað sem hamaðist á ströndinni sem aldrei fyrr, en svo var vinnan mín niðurfrá, það er Adult Literacy fólkið mitt, með áramótaboð sem við mættum í. Stoppuðum ekkert mjög lengi en þetta var ágætt, svona týpískt malavískt boð, ekkert of mikið fjör, allir voða virðulegir og sitja og raða í sig mat og drykk, hverfa sko ófáar kók og bjórflöskurnar ofaní liðið!!