mánudagur, ágúst 28, 2006

Mzuzu og meira

Helst í fréttum þessa dagana er að við héldum hádegisverðarboð fyrir starfsfólkið í fullorðinsfræðsluverkefninu á fimmtudaginn síðasta. Þau voru öll hér uppfrá á námskeiði og voru á leið suður til Monkey Bay þannig að þetta var upplagt tækifæri til að bjóða þeim heim. Boðið haldið úti í garði og fór í alla staði vel fram. Búið að vera mikið að gera á heimilinu við að útbúa mat og ganga frá öllu. Þau fóru svo af stað niðreftir með afganga af kjúklingum og grjónum og fleiru með sér þannig að það voru allir saddir og sælir. Sama dag byrjaði Kristrún í myndlistartímum. Hún og Alice fóru saman og voru voða ánægðar. Voru að búa til hluti úr leir sem síðan á að brenna og þær að skreyta síðar. Kennarinn heitir Christina og er frá Zimbabwe skilst okkur. Kristrúnu fannst þetta merkilegt að kennarinn héti það sama og krakkarnir í Monkey Bay kalla hana, en þar gengur hún yfirleitt undir nafninu Kristina, og finnst það bara hið besta mál!

Drifum okkur svo í ferðalag um helgina. Fórum norður til Mzuzu og gistum þar í eina nótt. Virkilega gaman og verulega falleg leið. Dálítið öðruvísi en hér sunnar, miklu fámennara, alltaf færri og færri gangandi og hjólandi og allt það eftir því sem maður kom norðar, stundum meira að segja ekki hræða á ferli. Þarna eru líka skógar, sem maður sér ekki sunnar í landinu, búið að höggva það allt niður. Gistum í góðu yfirlæti á Mzuzu Hotel, þar sem við fengum frábæra þjónustu og góðan mat. Hótelið sjálft má muna sinn fífil fegurri, er svona ekta hús frá 1970, en væri eflaust hægt að gera það virkilega flott ef vilji og efni væru til. Í Mzuzu er mun kaldara loftslag heldur en hér, við þurftum að fara í peysur um kvöldið, og það var bara nokkuð svalt þegar við lögðum af stað í gærmorgun. Keyrðum svo aðra leið til baka, yfir til Nkhata Bay og þaðan niður með ströndinni. Frábært að keyra leiðina frá Mzuzu til Nkhata Bay, allt í blóma, grænt og fínt þrátt fyrir þurrkatímabilið, og allskyns grænmeti og ávextir til sölu á leiðinni. Kíktum svo niður að höfninni í Nkhata Bay og skoðuðum markaðinn þar. M.a. var þar Afrískur læknir með varning sinn útbreiddan, allskyns tófuskott og jurtaduft og fleira. Hann var í miðjum klíðum að lækna einhverja stúlku, sitjandi í moldinni. Keyrðum svo í gegnum gúmmíplantekru á leiðinni, gaman að sjá það, öll trén með svona litlar dósir hangandi utaná sér sem gúmmíið lak ofaní. Vorum svo komin til baka bara um hálf fimm leytið í gær og allt með kyrrum kjörum í area 10

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Catch 22

Ekki hefur það nú gengið "félega" að verða sér úti um pening ... náði þó að taka út 20.000 kwacha í gær í öðrum banka en vanalega, en svo ekki söguna meir. Reyndum aftur í dag og ekkert gekk. Í þetta sinn var það hraðbankinn sem var í ólagi, sá sem var á undan mér fékk heldur engang pening! En, maður berst hinni hetjulegu baráttu og heldur áfram!!! Verst að þetta þýðir að maður getur ekki borgað símareikninginn, fær í fyrsta lagi engan pening, og svo tekur það marga daga að hamstra fyrir honum í hraðbönkunum;) Þannig að það er auðvitað búið að loka símanum ... another day in the life .... Náði þó að borga rafmagnsreikninginn í gær, verst af öllu er þegar þeir aftengja rafmagnið hjá manni afþví maður hefur ekki borgað reikninga sem aldrei bárust. En hér á maður svosem að vita að maður fer bara og borgar hvort sem maður hefur fengið reikning eða ekki, þeir koma bara eftir dúk og disk.

Annars er núna verið að setja upp hjá okkur rafmagnsgirðingu ofan á hina stóru háu girðinguna til að halda nú úti óæskilegum einstaklingum sem koma í skjóli nætur. Við svosem fengið okkar skerf af því þó þeir hafi aldrei komist inn í húsið. Kristrún hefur mikinn áhuga á þessu verki, spáir mikið í þessa "ströngla" einsog hún kallar það sem verið er að setja ofaná girðinguna, og fannst merkilegt að þetta virkaði svipað og hestagirðingar sem hún hefur séð á Íslandi. Vonandi svo að þetta haldi þeim úti sem það á að halda úti. Maður getur allavega ekki séð að neinn nema fuglinn fljúgandi ætti að komast yfir þetta með góðu móti.

mánudagur, ágúst 21, 2006

The quest for money ....

Smá sögur af sérmalavískum vandamálum. En stór hluti laugardagsins fór í það að reyna að ná út peningum úr bönkum og hraðbönkum - með engum árangri! Farið í National Bank til að reyna að taka útá kreditkort, þar var maður settur í þriðju gráðu yfirheyrslu um hvað maður væri nú að gera hér og ætlaði að vera lengi og guð veit hvað, passinn grandskoðaður og loks tilkynnt að þeir gætu af manngæsku sinni leyft þessa transaksjón ef greiddur væri kostnaður auk 3% kommissjónar af úttekinni upphæð. Þetta fannst okkur keyra um þverbak og sögðum bara nei. Reyndum svo alla mögulega hraðbanka og alltaf kom neitun – maður við það að fljúga uppúr þakinu af pirringi ... sérstaklega afþví að í bankanum var okkur ráðlagt að vera ekki að þessu veseni og taka bara útúr hraðbanka!

Annars það helst í fréttum að fröken KI fór í klippingu á fínustu stofu Lilongweborgar hjá aðal klippimanninum, en samt .... hárið allt skakt og mamman, sem er nú ekki sú liðtækasta með skærin, varð að laga það allt þegar heim kom. En voða gaman á hárgreiðslustofunni, fékk hárþvott og svona einsog fín frú og var voða lukkuleg með þetta allt. Þar hittum við líka íþróttakennarann úr skólanum sem var þarna í hand-og fótsnyrtingu með dætrum sínum sem eru á aldur við KI. Þetta fannst minni nú sniðugt og lagði á það mikla áherslu að hún fengi að fara í svona handasnyrtingu áður en langt um liði! Þannig að við mæðgur verðum bara að drífa okkur í svona “mother-daughter” dæmi fljótlega þarna á snyrtistofunni. Vorum svo með fólk í mat á laugardagskvöldið þannig að þegar maður var búinn að róa sig niður eftir vesenið við það að vera fórnarlamb malavísks samsæris um að láta mann nú fara að spara og taka ekki út pening, þá var það eldamennska sem beið.

Drifum okkur svo til Dedza á sunnudeginum, fengum okkur kaffi og kíktum á Mpira bræðurna sem eru núna komnir með stærri og betri “búð/sýningarsal” fyrir útskurðinn sinn. Komumst að því að þeir lærðu í Mua hjá Father Bouchée og fluttu sig svo þarna yfir til Dedza. Greinilega ýmislegt gott að koma útúr þessu brölti þarna hjáa kaþólikkunum í Mua.

miðvikudagur, ágúst 16, 2006

Fyrsti dagurinn í Standard One

Þá er fyrsti skóladagurinn búinn. Ægilega spennandi að byrja aftur og hitta alla krakkana. Nýr kennari þetta árið, Miss Thompson, sem er afar skelegg stúlka frá norður Írlandi. Flestir krakkarnir í bekknum þau sömu og í fyrra. Einhver ný og örfáir sem voru settir í aðra bekki. Kristrún að sjálfsögðu strax í essinu sínu, og var farin að stjaka foreldrunum í burtu, "þurfið þið ekki að fara að drífa ykkur" og "það er komið line-up nú megið þið fara"!! Svo byrjar leikfimin á morgun, það var nú alltaf mikið uppáhald, og ekki var verra að þær fréttir komu að þau mættu mæta með einn bangsa með sér á morgun og hafa "teddy-bear picnic". Svo voru frímínúturnar náttúrlega alltof stuttar, maður hafði varla tíma til að borða snakkið sitt hvað þá að leika eitthvað af viti! Sum sé, allt fór vel fram og allir glaðir og ánægðir.

Kveðja frá skólastelpunni og foreldrum hennar

mánudagur, ágúst 14, 2006

Blantyre og bílpróf

Eftir viku í sveitasælunni í Monkey Bay drifum við okkur í það sem Malawi kemst næst borgarmenningu, þ.e. til Blantyre. Höfðum það fínt, fórum í mallið og keyptum bækur, skoðuðum timburfyrirtæki og húsgagnaframleiðslur og röltum aðeins um í bænum. Náðum að kaupa einsog einn spegil á markaðnum og skálar úr einhverjum afar sérstökum við. Eða okkur var allavega sagt að þetta væri mjög flottur og fínn viður .... en maður á náttla ekki að trúa öllu sem þessir "seljukallar" segja ... enda gerum við það svosem ekkert! En skálarnar voru fínar. Fullt af túristum í Blantyre, hvítingjar á hverju strái, þannig, allavega miðað við Malawi. Keyrðum svo aðra leið heim en vanalega, vorum orðin létt stressuð á tímabili að við hefðum villst en svo var nú ekki.

Þegar heim kom var allt með kyrrum kjörum, á sunnudaginn kom Alex garðyrkjumaður svo til okkar með pappíra undir hendini sem sýndu að hann er búinn að ná bílprófinu sem hann hefur verið að læra undir. Við vorum afar ánægð með það að þetta skyldi hafa tekist hjá honum, svo er bara eftir að fara með honum í skólann og þaðan til Road Traffic til að fá skírteinið endalega afhent. Vonandi getur hann svo nýtt sér þetta eitthvað, kannski einhverntíman fengið vinnu við að keyra eitthvað af þessum eiturspúandi bílskrímslum sem hér fara um göturnar -- vonandi þó að ef af því verður að farartækið verði með bremsur og kannski tryggt.

Annars er skólinn hjá Kristrúnu að fara að byrja á morgun, fyrsti dagurinn í Standard One. Alice vinkona komin frá Bretlandi og þær farnar að leika saman, voða fjör í gær hjá þeim með naggrísina hennar Alicar þá Ollie og Mollie og nýjasta fjölskyldumeðliminn í naggrísafjölskyldunni. Þær þvældu með þau í körfum og bjuggu til heimili fyrir þá.

Segjum skólafréttir á morgun ....
við í Lilongwe

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Músastríðin miklu við Apaflóa

Erum komin til Apaflóa, búin að vera síðan á föstudag. Hér allt með kyrrum kjörum, óvenju kalt raunar. En maður bara nýtur þess á meðan er og tekst svo á við 40 stiga hitann þegar þar að kemur!

Annars er það helst að frétta úr Strandkoti að þar geysa mikil músastríð. Urðum vör þar við pattaralegar mýslur sem stukku um og skemmtu sér, svo mjög að þær voru komnar alveg uppá rúmstokk til okkar, þá var nú gott að vera með moskítónetin, þó þau séu að sjálfsögðu ætluð til að halda heldur minni kvikindum úti! En við fórum í leiðangur og keyptum bleikt músanammi sem á víst að vera litið hollt fyrir mýslur, og eina gildru sem við fundum á markaðnum, en sú kom nú að litlum notum, mýslur bara átu úr henni og stukku á brott;) Þannig að músastríðin halda áfram og ekki spurt fyrr en að leikslokum. Svo eru vinir okkar íkornarnir búnir að hreiðra um sig aftur í stráþakinu, engar leðurblökur svo við vitum, þær hafa verið meira fyrir að vera undir járnþakinu í næsta húsi.

Kristrún og Liefa héldu svo andakt við hvíta húsið og hugsuðu til fyrrum íbúa þar. Þær urðu báðar hálf miður sín þær sakna fjölskyldunnar svo mjög. Kristrún kom hlaupandi yfir í strandkot og sagði frá þessu og sagðist sakna Ragnhildar, Skarphéðins og krakkanna svo mjög að hún fengi bara tár í augun .... og Liefa líka!

Nóg í bili, íbúarnir við Apaflóa

fimmtudagur, ágúst 03, 2006

Komin aftur til Malawi

Komum heilu og höldnu til Malawi í síðustu viku, eftir fyrirframákveðið stopp í London og óvænt stopp í Jóhannesarborg. Vélin til Lilongwe var farin loks þegar við lentum í Jóhannesarborg og við gistum því þar í góður yfirlæti í boði South African Airways. Höfðum það hörkufínt, slöppuðum af og náðum okkur eftir langt ferðalag, borðuðum heil óskup, veitingastaðurinn á hótelinu alveg frábær og varð þeim feðginum að orði: hvernig ætli kvöldmaturinn verði ef þetta er hádegismatur!

Allt við það sama í Malawi. Búið að vera mjög kalt þennan veturinn og er frekar svalt ennþá. Þó farið að hlýna verulega yfir miðjan daginn. Jörðin sviðin vegna þurrka, en regnið hætti í byrjun apríl. Malawar aftur teknir til við að kveikja bál hvar sem þeir fara, tókum eftir þessu þegar við komum fyrst í fyrra og fannst skrítið, en þetta er sum sé iðja sem þeir stunda þegar kaldast er.

Nóg í bili, kveðja frá okkur í Lilongwe